Fréttasafn28. jan. 2021 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Skortur á íbúðum getur skilað ólgu á vinnumarkaði

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, tók þátt í pallborðsumræðum á húsnæðisþingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem var í beinu streymi undir yfirskriftinni í „Húsnæði – undirstaða velsældar“. 

Sigurður segir að í niðurstöðum talningar Samtaka iðnaðarins á íbúðum í byggingu sem kynntar voru fyrir um ári síðan hafi sést merki um að ef ekkert yrði að gert yrði skortur á nýbyggingum á komandi árum. „Það var mikið hrun eða fækkun á verkefnum sem var byrjað á á milli tímabila þannig að þó það væru mikil umsvif og kranar víða um borgina eða bæi og fjöldi íbúða í byggingu þá var verið að byrja á mjög fáum nýjum verkefnum. Við sáum það líka í seinni talningu ársins sem kom síðasta haust, til dæmis í Reykjavík, að þau verkefni sem höfðu farið af stað þá voru nær eingöngu verkefni á vegum félaga eins og Bjargs en það eru íbúðir sem eru ekki að fara inn á almenna markaðinn. Með hliðsjón af þessu og með hliðsjón af því að það tekur auðvitað langan tíma að fara í framkvæmdir og framkvæma. Það tekur 2 ár frá fyrstu skóflustungu og þar til hægt er að flytja inn. Það eru allar líkur á því að það komi sá tími hérna eftir kannski 2 ár þar sem verði hreinlega skortur á markaðnum með tilheyrandi verðhækkunum bæði á húsnæði en ekki síður á leiguverði. Það má búast við því að það muni skila sér í ólgu á vinnumarkaði þegar þar að kemur, sem við sáum raunar árið 2018 og 2019.“

Sigurður segir þetta vera býsna alvarlega stöðu. „Og minnir okkur á það að húsnæðis- og byggingarmálin hafa mjög mikið að segja varðandi hagstjórnina og efnahagsþróunina. Þess vegna skiptir svo miklu máli að þetta sé tekið föstum tökum.“

Á vef HMS er hægt að horfa á upptöku af þinginu. Pallborðsumræðurnar þar sem Sigurður tekur þátt hefjast á 1:30:00.

Hér er hægt að nálgast skýrslu um stöðu og þróun húsnæðismála sem HMS hefur gefið út. 

Husnaedisthing-27-01-2020