Fréttasafn23. maí 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Skortur á íbúðum hamlar atvinnuuppbyggingu

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Sprengisandi á Bylgjunni, um húsnæðismarkaðinn ásamt Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, hagfræðing BSRB. Þar er meðal annars farið inn á hvort grípa þurfi til  miðstýringar vegna markaðsbrests.

Í viðtali Kristjáns Kristjánssonar kemur fram hjá Sigurði að það séu ekki nýjar fréttir að ríkið þurfi að taka ábyrgð á húsnæðismarkaði. Hann telur þó að aðstæður á höfuðborgarsvæðinu séu þannig að ekki þurfa að grípa inn í. „Staðan er bara svo ólík um landið og hérna á höfuðborgarsvæðinu þar sem er náttúrlega fjölmennast, þar eru aðstæður til staðar þannig að markaðurinn á að geta leyst úr málum. Hérna eru verktakafyrirtæki, ef þau fá lóðir þá byggja þau upp og sveitarfélögin hafa mikið um það að segja í gegnum skipulagið hvar er byggt og hvernig íbúðir. En úti á landi, til dæmis, þar vantar mikið af íbúðum. Það er farið að hamla atvinnuuppbyggingu, til dæmis eins og á Austurlandi. Þar eru ekki nægar íbúðir, þannig að fyrirtækin geta ráðið fólk en fólkið getur ekki flutt á svæðið. Þar til dæmis þarf einhvers konar inngrip.“ 

Sigurður segir það gleðiefni að stjórnvöld séu að taka við sér hvað þetta varðar og bendir á að Samtök iðnaðarins hafi fagnað því þegar innviðaráðuneytinu var komið á fót. „Það er mjög gott að sjá að það skuli strax hafa þau áhrif að ráðherra málaflokksins og náttúrlega ríkisstjórnin skuli taka boltann og setja af stað átakshópinn með aðilum vinnumarkaðarins og reyna að ná sátt um málið.“ 

Hér er hægt að nálgast viðtalið í heild sinni.

Vísir, 22. maí 2022.