Fréttasafn



8. okt. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Skortur á íbúðum veldur ójafnvægi á markaði

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Tryggð byggð og Samtök iðnaðarins munu á næstu vikum standa fyrir fundarröð um land allt um stöðu íbúðauppbyggingar og framtíðarhorfur. Góð mæting var á fyrsti fundurinn sem var haldinn í samstarfi við Austurbrú um stöðu íbúðauppbyggingar á Austurlandi. Fundurinn var haldinn á Hótel Valaskjálfi á Egilsstöðum í gær.

Í kynningum HMS og SI kom fram að samkvæmt nýjustu greiningu beggja sé ljóst að alvarlegur skortur sé á íbúðum á íslenskum markaði. Skorturinn hafi leitt til verulegrar hækkunar á húsnæðisverði, sem hafi bein áhrif á vaxandi verðbólgu og hærri stýrivexti Seðlabankans.

Friðrik Ágúst Ólafsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, sagði meðal annars að húsnæðiskostnaður vegi þungt fyrir íslensk heimili og hafi áhrif á vísitölu neysluverðs. „Framboðsvandinn kemur óneitanlega fram í hækkun á leiguverði og auknu álagi á heimilin." 

Þá kom fram að greiningarnar varpi ljósi á að grunnvandinn liggi í of lítillri íbúðauppbyggingu undanfarin ár, þó svo landsmönnum hafi fjölgað hratt á sama tíma. Jafnframt kom fram að arkitekta- og verkfræðistofur innan Samtaka iðnaðarins hafi orðið varar við samdrátt í verkefnum tengdum íbúðauppbyggingu, sem muni senn sjást í minnkuðu framboði í framtíðinni.

Á fundinum kom fram að HMS og SI kalli eftir átaki í uppbyggingu íbúða á landsvísu og vilja að áhersla verði lögð á að skapa fjölbreytta valkosti fyrir ólíka tekjuhópa og svæði. Einnig að áhersla verði lögð á nauðsyn á skilvirku skipulagi sveitarfélaga til að mæta álagi verktaka eftir lóðum, og þá lóðir fyrir húsnæði sem bæði íbúar og verktakar treysti sér til að byggja. Skipulag sem falli ekki að þessum aðilum hafi óneitanlega heft íbúðauppbyggingu. „Lausnin er einföld, við þurfum að byggja meira í takti við þarfir samfélagsins," sagði Friðrik.

20241007_120943