Fréttasafn



6. des. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Innviðir Mannvirki Orka og umhverfi

Skortur á raforku með tilheyrandi verðhækkunum

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Morgunblaðinu um það sem kemur fram í nýrri greiningu SI að rafmagnsverð á Íslandi hafi hækkað um 13,2% síðustu 12 mánuði, sé mesta hækkun í 13 ár og að raunverð raforku hafi hækkað um 8,4% síðasta árið. Í fréttinni segir að SI segi hækkunina á raforkuverði endurspegli þá stöðu að raforkuframleiðsla hafi ekki haldið í við vöxt og viðgang samfélagsins, þar á meðal fólksfjölgun.  „Hækkunin hefur verið minni hjá heimilum heldur en hjá fyrirtækjum undanfarin ár en talsverð hækkun hefur orðið á þessu ári umfram vísitölu neysluverðs. Auk þess hefur verðið hækkað býsna mikið í útboðum síðustu tvo mánuðina. Ef þessar vísbendingar sem við sjáum gefa fyrirheit um framtíðina verður ástandið með þessum hætti næstu árin. Stjórnvöld voru værukær í allt of langan tíma og nú eru afleiðingarnar af því komnar fram. Það mun taka mörg ár að vinna úr þeirri stöðu,“ segir Sigurður í Morgunblaðinu og vísar til tímabils á árunum 2008-2021 en eftir það hafi stjórnvöld tekið við sér að hans mati og bendir á að raforka verði ekki til á einni nóttu. „Ný raforka mun ekki koma inn á kerfið fyrr en eftir um tvö ár þegar Búrfellslundur verður tekinn í notkun. Fjögur eða fimm ár eru þar til Hvammsvirkjun verði tekin í notkun og því er langt í að staðan breytist. Við erum farin úr því að vera land með næga raforku yfir í skort á raforku með tilheyrandi verðhækkunum.“ 

Fyrirboði um enn meiri hækkun raforkuverðs

Í frétt Morgunblaðsins er vísað í að í gögnum SI komi fram að hækkunin endurspegli mikla hækkun á heildsölumarkaði: „Hækkun á raforkuverði endurspeglar mikla hækkun á raforkuverði á heildsölumarkaði. Raforkumarkaður tók til starfa í apríl 2024 og nefnist hann Vonarskarð. Gögn af þeim markaði sýna að verð á raforku hefur hækkað um 32-34% síðan síðasta sumar. Um er að ræða niðurstöður úr söluferli á mánaðarblokkum með afhendingu á fyrstu fjórum mánuðum næsta árs. Mánaðarblokk er rafmagn sem er afhent í mánuð í senn. Að mati Samtaka iðnaðarins er þetta fyrirboði um að enn meiri hækkunar raforkuverðs sé að vænta.“ 

Stjórnvöld þurfa að horfa langt fram í tímann í þessum málaflokki

Þá kemur fram í frétt Morgunblaðsins að Sigurður segi að nú sé verið að undirbúa orkuskipti og að meira rafmagn þurfi til að skipta olíu út en rafmagnsverð hækki talsvert mikið á sama tíma. „Stjórnvöld rufu kyrrstöðu í orkumálum á síðustu tveimur til þremur árum. Ríkisstjórninni og ráðherra málaflokksins tókst að snúa taflinu við. Rammaáætlun var samþykkt sem dæmi og farið í verkefni til að greiða götu uppbyggingar. Þetta minnir okkur hins vegar á að á hverjum tíma þurfa að vera til orkukostir. Stjórnvöld þurfa að gera sitt og horfa langt fram í tímann í þessum málaflokki sem þau gerðu sannarlega ekki fyrr á árum heldur sváfu á verðinum. Nú sitjum við uppi með það, því miður.“ 

Morgunblaðið / mbl.is, 6. desember 2024.

Morgunbladid-06-12-2024