Fréttasafn



25. okt. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Skráargatið hvatning til að auka framboð af hollum matvælum

Samtök iðnaðarins, í samstarfi við Matvælastofnun og Embætti landlæknis, stóðu fyrir málstofu um Skráargatið síðastliðinn miðvikudag. Á málstofunni var fjallað um notkun Skráargatsins hér á landi en Skrárgatið er opinbert, samnorrænt merki sem tekið var upp hér á landi árið 2013 og er að finna á umbúðum matvæla sem uppfylla skilyrði varðandi samsetningu næringarefna.

Með því er Skráargatinu ætlað að auðvelda neytendum að velja hollari matvörur og vera matvælaframleiðendum hvatning að þróa vörur og auka framboð af hollum matvælum á markaði.

Á málstofunni fjallaði Jóhanna E. Torfadóttir, verkefnisstjóri næringar hjá embætti landlæknis, um Skráargatið og neytendur. Grímur Ólafsson, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofn, fór yfir nýjar reglur Skráargatsins og Svandís Erna Jónsdóttir, gæðastjóri Myllunnar fjallaði um Skráargatið frá sjónarhorni framleiðenda. Gunnar Sigurðarson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, var fundarstjóri.

Þá voru einnig kynntar helstu niðurstöður landskönnunar á mataræði Íslendinga sem framkvæmd var frá 2019 – 2021, en ítarlegri upplýsingar um þær má finna á vef embætti landlæknis.

Ítarlegri upplýsingar um Skráargatið, notkun þess og reglur má finna á vef Matvælastofnunar.

Upptöku af málstofunni má finna á Facebook-síðu Samtaka iðnaðarins.

Á myndinni er Svandís Erna Jónsdóttir, gæðastjóri Myllunnar.