Fréttasafn



15. nóv. 2017 Almennar fréttir Menntun

Skrifað undir samning Samtaka iðnaðarins og Team Spark

Samtök iðnaðarins eru bakhjarl Team Spark sem er lið verkfræðinema við Háskóla Íslands í kappaksturskeppninni Formula Student. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Marín Lilja Ágústsdóttir, framkvæmdastjóri Team Spark, skrifuðu undir samning þess efnis í Háskólabíói.

Lið Háskóla Íslands hannar og smíðar eins manns rafmagnsknúinn kappakstursbíl sem keppt er með erlendis í alþjóðlegri kappaksturskeppni þar sem lið frá mörgum af bestu tækniháskólum heims keppast um að smíða besta kappakstursbílinn.

Team Spark hefur tekið þátt í kappaksturskeppnum frá árinu 2011 og er eitt af markmiðum Team Spark að vekja áhuga á tækni og nýsköpun í samfélaginu. Liðið tekur þátt í að kynna í grunnskólum hvað þau eru að læra og hvernig það tengist hönnun bílsins. Markmið kynninganna er að ýta undir áhuga á raunvísindum og tækni meðal íslenskra grunnskólanema.

Samtök iðnaðarins hafa það að markmiði að fjölga þeim sem fara í tækni- og raungreinanám og áhersla er lögð á að vekja áhuga nemenda á fyrri skólastigum á þeim greinum. Samstarfið við Team Spark fellur því vel að þeim áherslum samtakanna.

Efri myndin: Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Marín Lilja Ágústsdóttir, framkvæmdastjóri Team Spark, skrifuðu undir samninginn. Við hlið þeirra má sjá kappakstursbílinn sem smíðaður var af verkfræðinemum Háskóla Íslands.

Neðri myndin: Marín Lilja Ágústsdóttir, framkvæmdastjóri Team Spark, kom til undirskriftarinnar á kappakstursbílnum. 

TeamSpark