Fréttasafn24. okt. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Skriffinnska orðin stærsti hlutinn við að koma upp húsi

Vignir Steinþór Halldórsson, annar eigenda byggingarfyrirtækisins Öxar og stjórnarmaður hjá SI, gagnrýnir síaukna skriffinnsku og lengd samþykktarferla hjá sveitarfélögum þegar kemur að byggingarverkefnum í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark. Þetta kemur fram í frétt á vef Viðskiptablaðsins. Vignir segir að koma blessaða húsinu upp sé orðið minnsta málið í ferlinu. „Þegar ég byrjaði í bransanum þá var það stóra málið. Núna er stærsti hluturinn bara skriffinnskan við að koma þessu af stað og alls konar hindranir. Þessu hefur öllu fjölgað.“

Í Viðskiptablaðinu segir að Vignir gagnrýnir forsjárhyggju borgarfulltrúa þegar komi að uppbyggingarverkefnum. „Þar eru yfirleitt mestu kvaðirnar. Ég kaupi lóð, ég ræð hvaða arkitekt ég vel mér og svoleiðis en ég má bara gera svona margar þriggja [herbergja íbúðir], svona margar fjögurra, svona margar fimm [...] Af hverju má ég ekki ráða hvort ég geri hundrað þriggja eða hundrað fimm herbergja íbúðir? Af hverju þarf sveitarfélagið að ákveða það fyrir mig?“ Þá segir að í þokkabót þurfi 25% íbúða að vera á vegum húsnæðisfélaga sem ekki séu rekin í ágóðaskyni, orgarstjórn hafi hækkað umrætt hlutfall í húsnæðisáætlun sinni úr 20% í 25% fyrir rúmu ári síðan og að gert sé ráð fyrir að 5% alls íbúðahúsnæðis sé félagslegt húsnæði.

Á vef Viðskiptablaðsins er hægt að nálgast fréttina og hlaðvarpsþáttinn.

Viðskiptablaðið, 18. október 2022.