Fréttasafn



26. sep. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Skringileg ummæli seðlabankastjóra

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, á Vísi um ummæli seðlabankastjóra um áhrif vaxta  á fjármálastöðugleikafundi þar sem kom fram að vaxtahækkanir héldu ekki aftur af byggingargeiranum. „Það er reyndar mjög skringilegt, því ef maður les greiningu Seðlabankans sem kom út núna samhliða þessum fundi um fjármálastöðugleika, þá kemur þar fram álit sérfræðinga bankans að stýrivextirnir hafi veruleg áhrif bæði á framboðs- og eftirspurnarhlið íbúðamarkaðarins,“ segir Ingólfur í frétt Vísis og að þetta heyri samtökin einnig frá verktökum innan sinna raða.

Ingólfur segist gæta ákveðins misskilnings um byggingargeirann og bendir á að um þriðjungur veltu greinarinnar komi frá byggingu íbúða. „Þannig að þegar við horfum á útlán til geirans í það heila, þá lýsir þróun þeirra ekki endilega hvernig íbúðarhlutinn er að þróast.“ Hann segir að í nýjustu talningu HMS á íbúðum í byggingu sé samdráttur.

Ingólfur bendir á að hlutverk seðlabankastjóra sé meðal annars að tala niður væntingar um verðbólguþróun. „Ég held að hann sé með þessu tali að reyna að tala verðbólguvæntingar niður.“ Hann segir að aðrar leiðir séu færar til þess. „Að viðurkenna þá rót vandans og ræða þá um lausn á honum, sem er þessi framboðsvandi.“

Vísir, 26. september 2024.