Fréttasafn



23. jún. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Skýtur skökku við að stjórnvöld velji þá leið sem farin er

Í ljósi mikils samdráttar í íbúðafjárfestingu skýtur það skökku við að stjórnvöld velji þá leið sem farin er til að draga úr þenslu, slá á vöxt hagkerfisins og þar með verðbólgu. Skilja stjórnvöld eftir aðra þætti eftirspurnar í hagkerfinu á borð við fjárfestingu atvinnuveganna og neyslu heimilanna. Nokkuð hraður vöxtur hefur þannig verið í neyslu og atvinnuvegafjárfestingu undanfarið, öfugt við það sem hefur verið í íbúðafjárfestingu. Þetta kemur fram í grein Björgu Ástu Þórðardóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, og Ingólfs Bender, aðalhagfræðings SI, í Viðskiptablaðinu með yfirskriftinni Að segja eitt og gera annað. 

Fyrirheit um stöðugleika og áherslu á framboðshlið

Þau segja að innviðaráðherra hafi sýnt forystu varðandi íbúðauppbyggingu með þeirri yfirlýsingu sinni að byggðar verði 35 þúsund íbúðir á tíu ára tímabili. „Steig ráðherra með þessu fyrsta skrefið í því að tryggja stöðugleika á íbúðamarkaði þar sem framboð íbúða er í takt við þarfir almennings. Annað skrefið steig ráðherra þegar hann fylgdi þessari markmiðasetningu eftir með rammasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem undirritaður var um mitt síðasta ár. Þriðja skrefið var samningur við Reykjavíkurborg sem gerður var á grundvelli þessa rammasamnings og vonandi verður öðrum sveitarfélögum til eftirbreytni. Þessi áform stjórnvalda og áætlanir um uppbyggingu gáfu fyrirheit um stöðugleika og áherslu á framboðshlið íbúðauppbyggingar.“

Ólíklegt að markmið um 35 þúsund íbúðir náist

Þá segja þau að miðað við spá HMS um framboð fullbúinna íbúða sem birt hafi verið fyrir skömmu sé ólíklegt að markmið stjórnvalda um að 35 þúsund nýjar fullbúnar íbúðir náist, nema þau beiti sér með markvissum hætti til að auka uppbyggingu íbúða. Markmið stjórnvalda byggi á þarfagreiningu HMS og íbúðaáætlunum sveitarfélaga. Samkvæmt greiningunni megi gera ráð fyrir að það þurfi rétt um 4.000 fullbúnar íbúðir inn á markaðinn í ár og sama fjölda næstu tvö ár. Miðað við spá HMS um fullbúnar íbúðir þá verði byggt undir íbúðaþörf á þessum tíma sem nemi 4.360 íbúðum. Þá aukist ójafnvægið á milli fjölda fullbúinna íbúða og áætlaðrar þarfar eftir því sem líði á spátímann.

Stjórnvöld segja eitt en gera allt annað

Jafnframt segja þau í greininni að nýsamþykkt hækkun virðisaukaskatts á íbúðauppbyggingu ári eftir framangreindan rammasamning og á sama tíma og framboðsskortur sé á íbúðarhúsnæði gangi gegn framangreindum markmiðum. „Stjórnvöld segja eitt en gera allt annað.“ Þau segja að lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna uppbyggingar og viðhalds íbúðahúsnæðis feli í sér skattahækkun á íbúðauppbyggingu sem muni fyrirsjáanlega leiða til hækkunar á íbúðakostnaði og draga úr framboði nýrra íbúða. Mikilvægt sé að snúið sé af þessari leið og endurgreiðsluhlutfallið hækkað aftur hið fyrsta.

Reikna má með áframhaldandi samdrætti í íbúðafjárfestingu

Í greininni kemur fram að minnkandi umsvif í uppbyggingu íbúða sjáist í þróun íbúðafjárfestingar í þjóðhagsreikningum síðustu misseri. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs drógust íbúðafjárfestingar saman um 14% frá sama ársfjórðungi í fyrra, metið á föstu verði. Samdrátturinn sem mældist á fyrsta ársfjórðungi sé sá mesti sem mælst hafi frá því að samdráttar fór að gæta í upphafi árs 2021. Miðað við spá HMS um fullbúnar íbúðir sem séu að koma inn á markaðinn á næstunni megi reikna með áframhaldandi samdrætti í íbúðafjárfestingu.

Mikilvægt að grípa til aðgerða til að örva framboðshlið

Í niðurlagi greinarinnar segir að Samtök iðnaðarins hafi lengi talað fyrir því að framboð á íbúðum verði að vera í takt við þarfir almennings. Í núverandi efnahagsumhverfi sé mikilvægt að grípa til aðgerða til að örva framboðshlið íbúðamarkaðsins og tryggja þannig áfram forsendur til íbúðauppbyggingar í takt við þörf. Til viðbótar slíkum aðgerðum þurfi samstillt átak ríkis, sveitarfélaga, Seðlabankans og aðila vinnumarkaðarins til að ná niður verðbólgu en með því skapist grundvöllur fyrir lægri vöxtum sem hvetji til aukinna fjárfestinga í íbúðarhúsnæði.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Viðskiptablaðið, 23. júní 2023.

Vidskiptabladid-23-06-2023