Fréttasafn14. maí 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Slæmt ef stýrivextir verða hækkaðir

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í grein í Viðskiptablaðinu að það væri slæmt ef Seðlabankinn finni sig knúinn til að bregðast við verðhækkunum hrávara og flutningskostnaðar með því að hækka stýrivexti vegna áhrifa þeirra á verðbólguvæntingar nú þegar þörf er á að stýrivöxtum sé haldið lágum til að örva hagkerfið til vaxtar. Þessar verðhækkanir gætu því leitt til aukinnar verðbólgu, hægari vaxtar kaupmáttar og hærri stýrivaxta. Allt séu það þættir sem munu auka við þá efnahagslegu erfiðleika sem fyrirtæki og heimili í landinu séu nú að glíma við.

Miklar hækkanir á hrávöru og gámaflutningum

Ingólfur segir miklar hækkanir hafi verið á verði á hrávöru og gámaflutningum frá miðju síðasta ári. Efnahagsbati heimsbúskapsins samhliða hnökrum í framleiðslu og flutningum hafi leitt til ójafnvægis á mörkuðum sem hafi stuðlað að þessum verðhækkunum með tilheyrandi auknum kostnaði fyrir fyrirtæki og heimili. Slæmt sé að fá þessar verðhækkanir sérstaklega við núverandi efnahagsaðstæður. Það bæti síðan gráu ofan á svart ef þær munu leiða til hækkunar stýrivaxta Seðlabankans líkt og hugsanlegt sé að verði raunin.

Þá segir hann að í nýlegri greiningu Samtaka iðnaðarins komi fram að hækkanir á verði almenns hrávöruverðs hafi síðustu misseri verið þær mestu í heilan áratug. Til að mynda hafi hrávörur á borð við timbur, málma og plastefni hækkað mikið í verði vegna öflugrar eftirspurnar og framleiðsluhnökra sem tilkomnir séu vegna COVID-19. Hrávöruverð án orkuverðs samkvæmt Alþjóðabankanum hafi hækkað um ríflega 40% á síðustu 12 mánuðum en í sumum tilfellum hafi hækkunin verið mun meiri.

Best ef Seðlabankinn sleppir verðhækkunum í gegn

Hann segir verðbólgu mælast nú 4,6% hér á landi og hafi hún aukist nokkuð undanfarið ekki síst vegna mikillar verðhækkunar á innfluttum vörum. Skýri verðhækkanir innfluttrar vöru þannig 2,0 prósentustig af núverandi verðbólgu en til samanburðar skýri húsnæðisliðurinn 0,9 prósentustig. Verðbólgan sé meiri hér en í Bandaríkjunum, Bretlandi og á evrusvæðinu og talsvert yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Ingólfur segir að best væri ef Seðlabankinn gæti sleppt þessum verðhækkunum hrávara og flutningskostnaðar í gegn án viðbragða en óvíst er hvort sú verði raunin. 

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Viðskiptablaðið / Vidskiptabladid.is, 13. maí 2021

Vidskiptabladid-13-05-2021