Fréttasafn



22. ágú. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Málarameistarafélagið

Slæmt sumarveður hefur mikil áhrif á málarastéttina

Rætt er við Kristján Aðalsteinsson, formann Málarameistarafélagsins, og Finnboga Þorsteinsson, málarameistara, í Morgunblaðinu þar sem kemur fram í máli þeirra að málarar landsins séu pirraðir og þreyttir eftir slæma veðrið í sumar. Þeir segja að mörgum verkum hafi verið frestað vegna veðurs og lítið hafi verið hægt að vinna utandyra vegna þess hversu mikið hafi rignt undanfarið. 

Færslur á mannskap milli inni- og útiverka eru mjög dýrar

Í Morgunblaðinu kemur fram að þeirra sögn hafi nokkrum sinnum í sumar byrjað að rigna eftir að málarar hófust handa utandyra og þá hafi málningin stundum runnið til eða jafnvel skolast alveg af. Kristján segir í fréttinni að það sé þá yfirleitt tap málarans sem þurfi að mála yfir og laga, þar sem þetta gerist oft við tilbúin verk. „Þetta hefur haft gríðarleg áhrif, bara tekjutap og annað, fyrir málarastéttina, það er alveg á hreinu. Dagar nýtast mjög illa, þú ert alltaf á flakkinu,“ segir Finnbogi. Margir málarar fari þá að vinna innanhúss en Kristján segir þá eiga erfitt með að komast aftur út þar sem verkefnin fari að stangast á. „Það er mjög erfitt að skipta á milli inni- og útiverka, þessar færslur á mannskap eru mjög dýrar,“ segir Finnbogi í fréttinni og að málarar séu orðnir þreyttir á þessu og að mikill pirringur sé í málarastéttinni í augnablikinu. „Bæði verða kúnnarnir pirraðir og afkoman verður mun lakari, þetta bitnar á öllum,“ segir Kristján. 

Morgunblaðið, 21. ágúst 2024.

Morgunbladid-21-08-2024