Fréttasafn5. sep. 2016 Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Slush Play í Reykjavík og Helsinki

Slush Play Reykjavík fer fram dagana 29. – 30. september í Austurbæ en einvalalið sérfræðinga á öllum sviðum hefur boðað komu sína á ráðstefnuna. Meðal annars verða aðilar frá Samsung Global, SES Group, Fury Games, King, RVX, CCP og Sólfar. Meðal fjárfesta sem ætla að mæta eru Tommy Leep og Peter Levin. 

Á ráðstefnunni verður framtíðin til umræðu í samvinnu frumkvöðla, stjórnenda, fjárfesta og fjölmiðlanna Economist og TechCrunch. Slush ráðstefnan er alþjóðlegur vettvangur fyrir frumkvöðla til þess að setja sig í samband við alþjóðlega fjárfesta, aðra fjársterka aðila og fjölmiðla. Viðburðurinn er árlegur í Skandinavíu og er einn stærsti sprota- og fjárfestaviðburður í Evrópu. 

Tæknifyrirtæki innan SI eru hvött til að mæta á þennan viðburðaríka atburð þar sem hægt er að skoða það nýjast í tækni, þar á meðal í sýndarveruleika (VR). Þeir sem vilja koma að ráðstefnunni beint, fjárfesta í miðum eða athuga hvaða tækifæri gætu verið til staðar geta haft samband við Diljá Valsdóttur hjá Icelandic Startups á netfanginu  dilja@icelandicstartups.is 

Nánar um Slush Play Reykjavík: http://www.slush.org/play/

Slush Play Helsinki

Fyrirtækin í Samtökum leikjaframleiðenda (IGI) voru dugleg að mæta á Slush Play í Helsinki í Finnlandi á síðasta ári og verður nú leikurinn endurtekinn. Skipulögð hefur verið ferð til Helsinki og opnað hefur verið fyrir skráningar í ferðina sem verður í lok nóvember en ráðstefnan stendur yfir 30. nóvember til 1. desember. Þetta er einstakt tækifæri til að komast í samband við fjárfesta, sjá það nýjasta í tæknigeiranum og efla tengslanetið.

Frestur til að skrá sig í ferðina til Helsinki er til 15. september næstkomandi. Hér er hægt að skrá sig: https://innovit.wufoo.com/forms/m1gwxiyx1paalg4/