Fréttasafn



20. sep. 2024 Almennar fréttir Mannvirki

Slysum á byggingarstað á Íslandi hefur fjölgað

 „Við höfum verið að bera okkur saman við lönd sem við viljum bera okkur saman við, Svíþjóð og Noreg, og við sjáum að það er staðreyndin að hér á landi er slysum heldur að fjölga,“ segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í frétt Benedikts Sigurðssonar á RÚV þar sem kemur fram að þrjú banaslys hafi orðið á byggingarstað á Íslandi á skömmum tíma og ekki verið fleiri undanfarin sex ár.

Í fréttinni kemur fram að samkvæmt tölum frá SI hafi slysum á byggingarstað fjölgað undanfarin ár. Í fyrra hafi þau verið tæplega tólf á hverja þúsund starfandi í mannvirkjagerð og að á sama tíma hafi þau nánast staðið í stað í Noregi, í kringum sex. Jóhanna segir í fréttinni mjög mismunandi hvernig fyrirtæki standi sig í öryggismálum: „Mörg fyrirtæki eru með mjög góða öryggismenningu og þekkja áhætturnar. Önnur fyrirtæki þurfa einfaldlega meiri hjálp.“

Þegar fréttamaður spyr Jóhönnu Klöru hvort margir þeirra sem komi til landsins til starfa í byggingariðnaði hafi allir fullnægjandi reynslu svarar hún: „Við sjáum að þar má gera betur. Við verðum að miðla okkar kröfum á mismunandi tungumálum.“ Nú sé unnið að því að koma á laggirnar sérstökum öryggisskóla mannvirkjagerðar, sem vonir standi til að taki til starfa á nýju ári en þess má geta að Rafmennt og Iðan standa að undirbúningi skólans.

Á vef RÚV er hægt að nálgast sjónvarpsfréttina.

RÚV, 19. september 2024.

RUV-19-09-2024_2Benedikt Sigurðsson og Jóhanna Klara Stefánsdóttir.