Fréttasafn



7. ágú. 2020 Almennar fréttir Félag íslenskra snyrtifræðinga

Snyrtifræðingar og viðskiptavinir með andlitsgrímur

Birna Ósk Þórisdóttir, formaður Félags íslenskra snyrtifræðinga og eigandi Snyrtihornsins Mist, segir í frétt Mannlífs þá snyrtifræðinga sem hún hafi talað við undanfarna daga leggja mikla áherslu á að fylgja öllum reglum og leiðbeiningum stjórnvalda. Hertar aðgerðir setji þó vissulega strik í reikninginn þar sem ómögulegt sé að sinna ákveðnum meðferðum þegar viðskiptavinir þurfa að nota grímu. „Ég get ekki svarað fyrir allar snyrtistofur en það sem ég hef heyrt er að það er búið að auka þrif mikið á öllum snyrtistofum og flestar snyrtistofur hafa frestað öllum andlitsmeðferðum. Margar snyrtistofur eru búnar að afbóka allar andlitsmeðferðir, sem sagt húðhreinsun, andlitsnudd og svo framvegis. Starfsfólk notar svo grímur og viðskiptavinir eru beðnir um að nota grímur líka. Það er þó áfram hægt að bóka tíma í litun og plokkun augabrúna og í aðrar andlitsmeðferðir þar sem viðskiptavinurinn getur borið grímu.“

Þegar Birna er spurð af blaðamanni Mannlífs nánar út í aukin þrif segir hún: „Handspritt er alltaf aðgengilegt, tímarit hafa verið fjarlægð af biðstofum, við notum einnota glös í staðin fyrir glerglös og minnum viðskiptavini á að svo sér um hendurnar svo nokkur dæmi séu tekin.“

Mannlíf , 6. ágúst 2020.

 

Margir snyrtifræðingar hafa afbókað andlitsmeðferðir í kringum munn

RÚV ræðir við Oddbjörgu Kristjánsdóttur, snyrtifræðimeistara og ritara stjórnar Félags íslenskra snyrtifræðinga, um reglur Almannavarna um tveggja metra fjarlægð og grímur sem gildir til 13. ágúst hið minnsta. Hún segir að margir snyrtifræðingar hafi afbókað andlitsmeðferðir þar sem þarf að vinna í kringum munn til 13. ágúst en að enn sé þó hægt að fara í litun og plokkun augabrúna og aðrar meðferðir þar sem viðskiptavinurinn getur borið grímu. Hún segir á RÚV að fyrst þegar reglurnar hafi verið kynntar hafi verið svolítið óljóst hvort það væru aðeins snyrtifræðingarnir sem ættu að bera grímur en svo hafi þeir ákveðið sjálfir að grímuskyldan myndi gilda um alla, bæði þá sjálfa og viðskiptavinina.

 

Í frétt RÚV segir að þegar faraldurinn hafi verið sem skæðastur fyrr á árinu hafi þurft að loka öllum snyrtistofum landsins og segir Oddbjörg það létti að ekki hafi verið gripið til þess ráðs nú og að fólk krossi fingur og voni það besta, enda hafi tekjumissirinn verið mikill. Þá kemur fram í frétt RÚV að það sé misjafnt milli snyrtistofa hve mikil áhrif hertar reglur hafi nú þegar ekki sé hægt að bjóða upp á allar tegundir af andlitsmeðferðum. Oddbjörg segir jafnframt að á sumum stofum séu andlitsmeðferðir stór hluti af starfseminni og af því leiði að fjárhagslega höggið verði meira þar en annars staðar. 

 

RÚV, 5. ágúst 2020.