Fréttasafn11. jan. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Sofandaháttur ríkir um þörf á aðgerðum vegna íbúðaskorts

„Hér blasir að einhverju leyti við hagfræðikenningin um harm heildarinnar. Sveitarfélögin hafa hvert um sig hámarkað sinn hag við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis undanfarin ár en það leiðir til þess að sárlega vantar íbúðir til að mæta þörfum landsmanna og svo mun verða áfram næstu ár,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Morgunblaðsins um nýja greiningu SI sem byggir á svörum stjórnenda verktakafyrirtækja. 

Í fréttinni segir að það sé óhætt að segja að það sé þungt hljóð í stjórnendum verktakafyrirtækjanna því samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar megi búast við verulegum samdrætti í byggingu nýrra íbúða á næstu misserum. Þannig reikni þeir með að hefja byggingu um 700 íbúða á næstu tólf mánuðum á meðan tæplega eitt þúsund íbúðir hafi verið í byggingu á síðustu tólf mánuðum, sem er tæplega 30% samdráttur. Í sambærilegri könnun sem gerð var í mars á síðasta ári bjuggust stjórnendur við um 65% samdrætti, sem raungerðist ef miðað er við talningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem framkvæmd var sl. haust.  

Sigurður segir í fréttinni að mjög alvarlegur íbúðaskortur blasi við á næstu árum en sofandaháttur ríki um þörfina á aðgerðum. „Þetta er þvert á þarfir landsmanna þar sem mikil fólksfjölgun ofan á margra ára uppsafnaða þörf fyrir nýjar íbúðir kallar á hraða uppbyggingu en ekki samdrátt.“

Morgunblaðið, 11. janúar 2024.

mbl.is, 11. janúar 2024.

Morgunbladid-11-01-2024_2