Fréttasafn



2. nóv. 2016 Almennar fréttir

Sóknarfæri íslensks iðnaðar

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, flutti erindi um framtíð íslensks iðnaðar á fundi Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands 1. nóvember. Guðrún fjallaði um sóknarfæri íslensks iðnaðar í framtíðinni þar sem hún sagði mikil verðmæti verða til hjá öllum þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem tilheyra iðnaði hér á landi þar sem bæði verkvit og hugvit eru nýtt til hins ýtrasta. Hún sagði meðal annars að framundan væri vöxtur á nær öllum sviðum atvinnulífsins og því ljóst að á næstu árum muni verða til þúsundir nýrra starfa hér á landi. Eftirspurn eftir hæfu og vel menntuðu starfsfólki ætti eftir að aukast og muni þá reyna mjög á menntakerfið að útskrifa fólk nægilega hratt til að mæta þessum mikla vexti sem virðist framundan. Menntakerfið á Íslandi þurfi að vera í takti við öra tækniþróun en svo virðist sem stór hluti þeirra starfa sem nú eru til verði það ekki innan örfárra ára. Ný störf muni taka við sem enginn veit hver verða. Menntastefnan verði því að taka mið af framtíðarþörfum og hagkerfið muni njóta góðs af því ef við aukum skilning á tækni og möguleikum sem tækninni fylgja. Þannig geti orðið til áhugaverð og vel launuð störf í framtíðinni.