Spálíkan Orkustofnunar þvert á markmið stjórnvalda
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í Fréttablaðinu að það sé undarlegt ósamræmi sem komi fram í spálíkani Orkustofnunar sem ætlað er að veita upplýsingar um orkuþörf Íslendinga í komandi orkuskiptum úr jarðefnaeldsneyti yfir í umhverfisvænni orkugjafa en stofnunin gerir ráð fyrir að Ísland muni enn brenna yfir 600 þúsund tonnum af olíu árið 2040. Í Fréttablaðinu kemur fram að það sé þvert á markmið stjórnvalda sem gangi út á að Ísland verði alfarið óháð olíu á fyrir þann tíma. „Það finnst mörgum skrítið að grunnspá, sem opinber stofnun eins og Orkustofnun setur fram, skuli ekki gera ráð fyrir því að markmið stjórnvalda í orku- og loftslagsmálum náist. Tala nú ekki um þar sem markmið Íslands um kolefnishlutleysi eru lögbundin,“ segir Sigurður í fréttinni.
Ekki góð skilaboð út í atvinnulífið og skilaboð misvísandi
Í Fréttablaðinu kemur fram að Sigurður telji það ekki góð skilaboð út í atvinnulífið og upplýsingarnar misvísandi. „Ég get ekki ímyndað mér að ríkisstjórnin sé ánægð með þessi vinnubrögð Orkustofnunar. Allar fjárfestingar í atvinnulífinu taka mið af þessum markmiðum. Fyrirtækin eru á fleygiferð við að tileinka sér nýja tækni sem tekur mið af breyttum orkugjöfum. Þetta eru mjög kostnaðarsamar aðgerðir. Það er því algjör grunnkrafa að tímasett markmið standi.“ Þá kemur fram að Sigurður telji tímann þegar orðinn nauman ef áform um orkuskipti eigi að ganga eftir.
Fréttablaðið, 28. desember 2022.