Fréttasafn



26. jún. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun

Sprenging í umsóknum í tölvuleikjanám er jákvætt merki

Þetta er talsvert umfram þá eftirspurn sem við bjuggumst við og sýnir kannski áhuga ungs fólks á þessum hugverkaiðnaði og leikjaiðnaðinum heilt yfir. Þetta er mjög jákvætt merki ef við hugsum um framtíðina. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, meðal annars í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgunni í tilefni þess að sprenging varð í umsóknum í nýja námsleið  til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð sem boðið er upp á í Keili en yfir 90 umsóknir bárust. 

Sigríður segir að menntamálaráðherra hafi veitti leyfi til inntöku 45 nýnema í haust og það sé litið á þetta sem tilraunverkefni. „Við ætluðum svo að sjá hvernig þetta mundi ganga. Þetta fer fram úr okkar væntingum en við gerum ráð fyrir að þetta þýði að þessi námsbraut muni festast í sessi í skólakerfinu. Það voru yfir 90 umsóknir þannig að það er mikil eftirspurn eftir þessu námi.“

Tölvuleikjaiðnaður á Íslandi veltir 8 milljörðum og yfir 300 manns starfa í iðnaðinum

Sigríður segir í viðtalinu að leikjaiðnaðurinn sé sá afþreyingariðnaður á heimsvísu sem sé að vaxa hraðast og sé orðinn stærri en kvikmynda- og tónlistariðnaðurinn samanlagt. „Það eru ekki margir sem átta sig á hversu gríðarlega stór iðnaður þetta er en sem dæmi þá er velta á Íslandi í tölvuleikjaiðnaðinum 8 milljarðar á ári.“

Hún segir að námsleiðin sé í boði í fyrsta sinn hér á landi og sé fyrirmynd frá Norðurlöndunum. „Þannig að þessi eftirspurn er gríðarlega jákvætt merki þess að ungt fólk hafi áhuga á að starfa í fjölbreyttari iðnaði en áður hefur verið. Námskerfið okkar hefur ekki boðið upp á þennan valmöguleika áður.“

Sigríður segir að í raun sé þetta ein af þeim forsendum sem við þurfum á að halda til að leikjaiðnaðurinn geti haldið áfram að vaxa og dafna. „Það er auðvitað margt annað sem þarf að gera en þetta er lykilatriði í átt að því markmiði að hugverkaiðnaðurinn vaxi og dafni. Það þarf að taka meira til í menntakerfinu til að svo megi verða en þetta er klárlega stórt skref. Það starfa núna yfir 300 manns í leikjaiðnaði í Íslandi en það er alltaf skortur á sérhæfðu starfsfólki þannig að þetta er mjög jákvætt skref í rétta átt.“

Baráttumál sem er loksins að verða að veruleika

Sigríður segir að á síðustu árum hafi þetta verið áherslumál hjá Samtökum leikjaframleiðenda sem eru hluti af Samtökum iðnaðarins. „Þetta hefur verið í rauninni í burðarliðnum í nokkur ár og er loksins að verða að veruleika. Þetta er því eitt af þeim baráttumálum sem samtökin hafa verið að vinna í á undanförnum misserum. Samtök iðnaðarins eru með stefnu í menntamálum og nýsköpunarmálum og þetta er eitt af þeim verkefnum sem við höfum verið að vinna í.“

Á vef Bylgjunnar er hægt að hlusta á viðtalið við Sigríði í heild sinni.

Á vef mbl.is er einnig hægt að lesa viðtal við Sigríði um aðsóknina í námið.