Fréttasafn



23. jún. 2017 Almennar fréttir Nýsköpun

Sprotafyrirtæki eiga erfiðara um vik að afla fjármagns

Í viðtali ViðskiptaMoggans við Davíð Lúðvíksson, sem fer fyrir málefnum nýsköpunarfyrirtækja hjá Samtökum iðnaðarins, kemur fram að sprotafyrirtæki eigi erfiðara um vik að afla fjármagns þessi misserin. „Það er tómahljóð í flestum framtakssjóðum á sviði nýsköpunar,“ segir hann í samtali við ViðskiptaMoggann og nefnir að frumkvöðlar leiti því í meira mæli til einkafjárfesta.

Þá segir í fréttinni að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sé uppiskroppa með fé til fjárfestinga. Í samtali við Almar Guðmundsson, stjórnarformann sjóðsins, kemur fram að sjóðurinn hafi ekki ráðist í nýja fjárfestingu í tvö ár eða frá árinu 2015. Í eignasafni sjóðsins eru um 30 fyrirtæki og hefur sjóðurinn að meðaltali átt í fyrirtækjunum í 9 ár. Almar segir að sjóðurinn hafi almennt átt fyrirtækin í eignasafninu of lengi. „Það er ekki hlutverk sjóðsins að vera langtímafjárfestir í fyrirtækjum. Því þá getur hann ekki rækt það hlutverk að vera virkur fjárfestir í nýsköpun,“ er haft eftir Almari.

Þess er getið í fréttinni að nýsköpunarráðuneytið hafi skipað starfshóp sem mun setja fram tillögur um rekstrarform og ráðstöfun eigna Nýsköpunarsjóðs.

Morgunblaðið, 22. júní 2017.