Fréttasafn



12. maí 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Staða kísilverksmiðju PCC á Bakka er grafalvarleg

„Staðan á Bakka er grafalvarleg og þarna eru fjölmörg störf í húfi, kannski allt að tvö hundruð störf ef við teljum með bein og óbein áhrif,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt  RÚV en verði staðan óbreytt í kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík gætu á annað hundrað manns misst vinnuna. Í fréttinni kemur fram að PCC sé næstfjölmennasti vinnustaður Norðurþings þar sem vinni um 130 manns.

Skýrt ákall um að stjórnvöld hugi að samkeppnishæfni iðnaðar og atvinnulífs

Sigurður segir það alls ekki sjálfsagt að halda úti atvinnustarfsemi og stjórnvöld hafi fullt um það að segja hvernig leikreglurnar séu og að í tilviki Bakka sé staðan erfið og samkeppni á markaði gríðarlega hörð. Lönd eins og Kína fái niðurgreiðslur frá ríkinu sem Sigurður segir skekkja samkeppnisstöðu á markaðnum. Hann segir það hlutverk stjórnvalda að gæta að samkeppnishæfi á Íslandi. „Það er bara skýrt ákall um það að stjórnvöld hugi að samkeppnishæfni iðnaðar og atvinnulífs. Ég fagna því að þau hyggist móta iðnaðarstefnu og við höfum tekið heilshugar undir það. En það þarf í raunninni bara að bæta skilyrðin á heildstæðan hátt og á fjölbreyttum grunni.“

Ísland staðið frammi fyrir orkuskorti undanfarin ár

Þá segir Sigurður í frétt RÚV erfitt að segja til um hvaða áhrif lokun á Bakka hefði á stöðuna á orkumarkaði, Ísland hafi staðið frammi fyrir orkuskorti undanfarin ár. „Þannig að orkufyrirtækin hafa ekki getað afhent alla þá orku sem um hefur verið samið.“

RÚV, 9. maí 2025.