Fréttasafn25. nóv. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Staðan á íbúðamarkaði ógn við stöðugleika

Samtök iðnaðarins tala fyrir stöðugleika með lágri verðbólgu og lágum vöxtum. Samtökin vilja stöðugleika á vinnumarkaði þar sem laun þróast í takt við framleiðnivöxt. Þar skiptir miklu stöðugleiki á íbúðamarkaði og jöfn uppbygging íbúða sem mætir þörfum landsmanna. Allir þeir sem vilja vita sjá að staðan á íbúðamarkaðinum í dag er ógn við stöðugleikann í landinu. Samtök iðnaðarins kalla eftir aðgerðum til að bregðast við þeirri ógn. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein sinni í ViðskiptaMogganum.

Hann segir aðgengi að viðunandi húsnæði sé ein af grunnþörfum hvers einstaklings og hverrar fjölskyldu. Uppbygging íbúða þurfi ávallt að vera í samræmi við þörf landsmanna. Undanfarið hafi það ekki verið þannig og afleiðingin sé aukin verðbólga, hærri vextir og óróleiki á vinnumarkaði. Stöðugleikanum sé ógnað og því þurfi að bregðast við. Ábyrgðin sé hjá sveitarfélögunum sem ákvarða framboð lóða.

Skortur á íbúðum og hillurnar nær tómar

Ingólfur segir skort vera á íbúðum. Hillurnar séu nær tómar og íbúðum í sölu hafi fækkað um 65% á landinu öllu frá því í maí í fyrra. Á sama tíma og framboð íbúða dragist saman hækkar verð íbúða hratt. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 17% á síðustu tólf mánuðum og um 24% litið til síðustu tveggja ára. Hann segir talningu SI á íbúðum í byggingu vera talinn besta mælikvarðann fyrir framboð nýrra íbúða. Samkvæmt nýjustu talningu SI hafi ekki færri íbúðir verið í byggingu á höfuðborgarsvæðinu á fimmta ár. Mælist samdrátturinn á milli ára 18% og 32% yfir síðustu tvö ár.

Í greininni kemur fram að SI áætli fjölda þeirra íbúða sem koma fullbúnar inn á markaðinn á landinu öllu. Ljóst sé að þær verða mun færri en þörf er fyrir. Næstu árin sé þörfin um 3.500 íbúðir á ári að mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Framboð fullbúinna íbúða sé langt undir því.

Vaxtahækkun kemur illa við fyrirtæki og heimili

Þá segir Ingólfur að hækkun húsnæðisverðs hafi verið stór þáttur í þrálátri og mikilli verðbólgu undanfarið. Verðbólgan mælist nú 4,5% en án húsnæðisliðarins sé hún 3,0%. Þáttur húsnæðis í verðbólguþróuninni hafi verið mikill um hríð. Peningastefnunefnd Seðlabankans hafi fundið sig knúna til að bregðast við þessari þróun með hækkun stýrivaxta. Nemur hækkunin það sem af er ári 1,25 prósentustigum. Sú hækkun komi illa við fyrirtæki og heimili sem mörg hver séu að ná sér eftir efnahagssamdrátt síðustu missera. 

Á framboðshlið þarf að brjóta land undir nýtt íbúðarhúsnæði 

Ingólfur vitnar í orð seðlabankastjóra sem segir að vandinn snúist um að fólk vanti húsnæði. Í því sambandi hafi seðlabankastjóri gagnrýnt sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fyrir að hafa ekki brotið nægilegt land undir nýtt íbúðarhúsnæði á síðustu árum og segir að það haldi aftur af því að framboðshlið fasteignamarkaðarins taki við sér.

Staða íbúðamarkaðarins stefnir kjarasamningum í óefni

Þá kemur fram í greininni að aðilar vinnumarkaðarins segi að staða íbúðamarkaðarins stefni kjarasamningum í óefni. Forsvarsmenn launafólks segi að án aðgerða sem auki framboð nýrra íbúða þurfi að gera háar launakröfur til að standa undir síauknum kostnaði við íbúðir, kapphlaup sem líklegt sé að leiði bara til aukinnar verðbólgu, hærri vaxta og óstöðugleika.

Reykjavíkurborg gæti verið stór hluti lausnarinnar

Í greininni segir Ingólfur að Reykjavíkurborg sé stór hluti ofangreinds vanda. Framboðsskortur á lóðum til hagkvæmrar íbúðauppbyggingar hafi lengi verið vandamál í borginni. Borgin gæti hins vegar verið stór hluti lausnarinnar. Um er að ræða langstærsta sveitarfélagið og því skipti miklu máli hvað þar sé gert í íbúðauppbyggingu. Hann segir að meirihlutinn í borginni sé með áætlun um 10 þúsund íbúðir á sama tíma og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telji að byggja þurfi 30 þúsund íbúðir á landinu öllu. Fólksfjölgunin sé langmest á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Íbúðir verði helst byggðar þar sem fasteignaverð sé hærra en byggingarkostnaður. Þess vegna verði uppbyggingin hlutfallslega meiri á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Ingólfur segir að opna þurfi borgina og bjóða valkosti utan þéttingarreita. Samhliða þurfi að bæta og byggja upp innviði, þ.m.t. samgönguinnviði sem dragi úr umferðartöfum.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

ViðskiptaMogginn, 24. nóvember 2021.

VidskiptaMoggi-24-11-2021