Fréttasafn



29. nóv. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Starfsár SI 2020 tileinkað nýsköpun

Starfsár Samtaka iðnaðarins 2020 verður tileinkað nýsköpun. Þetta tilkynnti Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í opnunarávarpi sínu á Tækni- og hugverkaþingi SI sem fram fór í Norðurljósum í Hörpu í gær. Hún sagði nýsköpun vera hvort heldur í frumkvöðlastarfsemi eða hjá rótgrúnum fyrirtækjum og að nýsköpun ætti sér margar birtingarmyndir og væri ekki síður mikilvægt að stóru og stöndugu fyrirtækin séu stöðugt í framþróun líkt og ungu sprotafyrirtækin. 

Guðrún sagði jafnframt að við værum í harðri samkeppni við aðrar þjóðir um störf og verðmætasköpun. Samkeppnishæft rekstrarumhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum muni skera úr um hvernig okkur farnast í þeirri samkeppni og það væri sérstaklega mikilvægt fyrir litla þjóð sem á allt sitt undir í utanríkisviðskiptum. Hún sagði að renna þyrfti styrkari stoðum undir útflutning til framtíðar og væri vöxtur hugverkaiðnaðar lykillinn að því.

„Við hjá Samtökum iðnaðarins sjáum mikil tækifæri í þeim greinum sem byggja á hugviti og nýsköpun og munu fulltrúar þessara greina koma fram hér í dag. Rannsóknir hafa sýnt að ung og ný fyrirtæki eru aðal uppspretta atvinnusköpunar. Þær ákvarðanir sem eru teknar í dag búa til vöxt framtíðarinnar. Stjórnvöld með öllum sínum skilaboðum þar með talið regluverki og lögum hafa áhrif á allar ákvarðanir okkar. Munum að það er hægt að hafa áhrif á framtíðina og við erum einmitt að því hér í dag.“

Í ávarpi Guðrúnar kom einnig fram að Samtök iðnaðarins hafi unnið nýsköpunarstefnu sem kynnt var í febrúar síðastliðinn. Hún hafi verið hugsuð sem innlegg í umræðuna og innlegg í stefnumótun stjórnvalda á þessu sviði. Nýsköpunarstefna stjórnvalda hafi svo verið kynnt í október sl. og væri mikill samhljómur með þeirri stefnu og stefnu Samtaka iðnaðarins. „Ég hlakka til að heyra hér á eftir ráðherra iðnaðar- og nýsköpunar kynna fyrstu aðgerðir stjórnvalda í þágu nýsköpunarumhverfisins sem koma í kjölfar nýsköpunarstefnu fyrir Ísland.“

Si_hugverkathing_2019-3Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI.