Fréttasafn



4. nóv. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Starfsleyfi ekki ígildi stjórnvaldsfyrirmæla

Samtök iðnaðarins gera athugasemdir við drög að skilmálum í starfsleyfum til fjárhagsupplýsingastofa í umsögn sem send hefur verið Persónuvernd. Samtökin gera athugasemdir við það sem kemur fram í bréfi Persónuverndar til Creditinfo um að líta eigi á starfsleyfið sem ígildi stjórnvaldsfyrirmæla. Í umsögninni segir að það sé í hendi ráðherra að uppfæra reglugerð um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og gefa út ný stjórnvaldsfyrirmæli en ekki Persónuverndar. Starfsleyfið sé því ekki og geti ekki haft einhvers konar ígildi stjórnvaldsfyrirmæla enda hafi Persónuvernd ekki lagaheimild til að gefa út slík fyrirmæli á grundvelli gildandi laga.

Þá telja samtökin kröfur um skráningu vanskila á vanskilaskrá of strangar og ítreka mikilvægi þess að skráning upplýsinga á vanskilaskrá sé ekki of takmarkandi. Auk þess sem samtökin gera athugasemdir við riftunarskyldu 6. greinar starfsleyfisdraganna. Samtökin telja að Persónuvernd fari út fyrir valdsvið sitt með þeirri kröfu að lokað verði fortakslaust á áskrifendur komi í ljós að brotið hafi verið gegn skilmálum. Persónuvernd hefur að mati samtakanna ekki heimild til að leggja til slíka riftunarskyldu né telja samtökin að hennar sé þörf.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.