Fréttasafn26. apr. 2018 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Starfsumhverfið er óstöðugt og draga þarf úr sveiflum

Í ViðskiptaMogganum í dag er sagt frá því að austurríska hugbúnaðarfyrirtækið Novomatic Lottery Solutions (áður Betware) sem er með skrifstofur í Holtasmára í Kópavogi hafi sagt upp 18 starfsmönnum sínum hér á landi sem unnu við hugbúnaðargerð. Eftir uppsagnirnar munu 94 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu á Íslandi og á öðrum starfsstöðvum fyrirtækisins í Austurríki, Serbíu og á Spáni starfa um 240 starfsmenn en sagt er frá því í fréttinni að breytingarnar séu liður í víðtækari aðgerðum fyrirtækisins til hagræðingar í rekstri og verður hugbúnaðargerðarfólki einnig fækkað á Spáni og Serbíu. Novomatic Lottery Solutions hannar hugbúnað fyrir ríkisrekin lotterí og er með viðskiptavini víða um heim. 

Í tengslum við fréttina er rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóri SI, sem segir að almennt séð sé það þannig að fyrirtæki í erlendri samkeppni hér á landi, annaðhvort í samkeppni við innfluttar vörur, eða í samkeppni erlendis, finni mikið fyrir stöðunni hér og sveiflum. „Þessi tíðindi endurspegla það að starfsumhverfið er óstöðugt. Hagkerfið sveiflast meira hér en gengur og gerist annars staðar. Lausnin er að draga úr sveiflum.“ 

Morgunblaðið, 26. apríl 2018.