Fréttasafn24. apr. 2023 Almennar fréttir Mannvirki

Stefnir í 65% samdrátt í uppbyggingu íbúða

Björg Ásta Þórðardóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, var meðal viðmælenda í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni. Þáttastjórnandinn Kristján Kristjánsson ræddi þar við Björgu Ástu og Guðmund Hrafn Arngrímsson, formann Leigjendasamtakanna, um húsnæðismarkaðinn. 

Björg Ásta greindi meðal annars frá niðurstöðum nýrrar könnunar meðal félagsmanna SI sem starfa við íbúðauppbyggingu þar sem kemur fram að stefni í 65% samdrátt í uppbyggingu íbúða á næstu 12 mánuðum. Um er að ræða félagsmenn sem eru í hópi fyrirtækja sem byggja 26% af heildarfjölda íbúða. Könnunin sýnir að umrædd fyrirtæki hafi hafið byggingu á 1.473 íbúðum á síðustu 12 mánuðum en munu byrja á 509 íbúðum á næstu tólf mánuðum. 

Björg segir í viðtalinu að staðan sé grafalvarleg, bæði vegna samdráttar í uppbyggingu íbúða en líka vegna fyrirtækjanna sjálfra. „Þessum fyrirtækjum líður ekki vel að vera í þessari stöðugu harmonikku. Þau hafa kallað eftir stöðugleika og það sem gerist núna þegar fer að draga saman er að fyrirtækin geta farið að missa starfsfólk úr landi.“ Hún segir aðspurð að um sé að ræða áætlanir og ekki sé endilega ljóst hvort af þessum tiltekna samdrætti verði. „Vonandi breytast þær. Við viljum halda áfram að byggja en við getum ekki egnt fyrirtækjum út í þá óvissu að byggja fyrir markað sem hefur ekki efni á því að kaupa. Það er líka staðan. Við getum heldur ekki verið með opna grunna hér um allt og búið til aðstæður sem við þekkjum mæta vel.“ Björg bætir því við að það sé fyrirtækjunum alls ekki í hag að ekki sé hægt að ráðast í frekari framkvæmdir. „Við viljum jafnt og þétt starfsumhverfi en erum því miður að sigla inn í annan óstöðugleika, sem er mjög slæmt.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

Bylgjan / Vísir, 23. apríl 2023.

Sprengisandur-23-04-2023Guðmund Hrafn Arngrímsson formaður Leigjendasamtakanna og Björg Ásta Þórðardóttir sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI.