Fréttasafn



25. jan. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Stefnir í gott ár fyrir iðnaðinn

„Með hliðsjón af því hvar við erum í hagsveiflunni töldum við hjá SI að árið 2018 yrði nýtt til undirbúnings fyrir framkvæmdaárið 2019. Þetta virðist vera að ganga eftir. Það stefnir í gott ár fyrir iðnaðinn,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Morgunblaðsins í dag. Þar segir að á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins hafi verið kynntar fjárfestingar á vegum hins opinbera fyrir um 130 milljarða í innviðum á Íslandi í ár og það sé um 50 milljörðum króna meira en í fyrra sem sé 60% aukning. 

Í fréttinni segir Sigurður að hið opinbera verði að nýta það svigrúm sem skapist þegar fjárfesting atvinnuveganna dragist saman og hægist á gangi hagkerfisins og hafa beri í huga að mikil uppsöfnuð þörf sé fyrir fjárfestingu í innviðum eftir fjársvelti síðustu tíu ár. Hann segir að spáin sé heldur varfærin og ætla megi að fjárfestingin á árunum 2020-2022 verði jafnvel umfram þessa áætlun. „Ég myndi ætla að framkvæmdir yrðu jafnvel ívið meiri en þarna er spáð. Það kom meðal annars fram í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Menn sjá betur styttra fram í tímann.“

Ekki vandamál að finna vinnuafl í verkefnin

Sigurður segir aðspurður að ekki verði vandamál að finna vinnuafl í öll þessi verkefni. Til dæmis séu nú færri starfandi í byggingariðnaði en árið 2007. Launþegar séu nú um 14 þúsund en hafi verið 16 þúsund þegar mest lét fyrir efnahagshrunið. 

Vegur á móti niðursveiflu í sumum greinum

Þá er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, sem segir áætlaða fjárfestingu í innviðum fyrir 130 milljarða í ár munu vega á móti niðursveiflu í sumum greinum. Atvinnuleysi sé að aukast. „Fjárfesting í atvinnuvegum dróst saman í fyrra. Þá til dæmis í ferðaþjónustu og stóriðju. Mannvirkjagerð og ferðaþjónustan hafa vegið langþyngst hvað starfasköpun varðar á síðustu árum,“ segir Ingólfur.

Morgunblaðið, 25. janúar 2018.

Mynd-ur-Mogga-25-01-2019