Fréttasafn



6. mar. 2018 Almennar fréttir Lögfræðileg málefni

Stefnubreyting sem stendur í vegi fyrir virkri samkeppni

Samtökin telja að um stefnubreytingu sé að ræða varðandi eignarhald á Landsneti og benda á að eignarhald Landsnets og hagsmunatengsl eigenda og stjórnarmanna við helstu viðskiptavini fyrirtækisins hafi áhrif á aðra viðskiptavini fyrirtækisins og standi í vegi fyrir virkri og heilbrigðri samkeppni. Slíkt varði alla raforkunotendur landsins; almenning, atvinnulíf og opinbera aðila. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum og lögum um stofnun Landsnets hf. (ýmsar breytingar), 115. mál, sem send hefur verið til atvinnuveganefndar.

Samtökin telja að ekki verði hjá því komist að Alþingi fjalli um áhrif þess að fella út fyrstu málsgrein 3. gr. um eignarhald Landsnets. Í umsögninni kemur fram að eignarhald Landsnets var í árslok 2016, skv. ársskýrslu, þannig: Landsvirkjun (64,73%), Rarik (22,51%), Orkuveita Reykjavíkur (6,78%) og Orkubú Vestfjarða (5,98%). Þá segir að fjöldi aðila hafi bent á vanda sem skapast við það að eigendur Landsnets séu jafnframt meðal þeirra stærstu viðskiptavina. Hætt sé við því að skörun eignarhalds á seljendahlið og viðskiptahagsmuna á kaupendahlið skapi freistnivanda sem ívilnar stærri viðskiptavinum á kostnað annarra og að á þetta hafi verið bent, m.a. í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Ekkert lát á hækkunum en verð fyrir flutningstöp jókst um 110%

Athugasemdir samtakanna eru í tveimur liðum. Annars vegar það sem varðar eignarhald Landsnets sem fjallað er um í II. kafla frumvarpsins og hins vegar er vakin athygli á nokkrum atriðum sem samtökin telja brýnt að endurskoða í raforkulögum. Meðal þess er endurskoðun ákvæða laganna varðandi tekjumörk fyrir flutning og dreifingu á raforku og hvetja samtökin Alþingi til að endurskoða 12. og 17. gr. raforkulaga.

Í umsögninni kemur fram að samtökin hafa m.a. bent á að aðferðafræðin við mat á vegnum fjármagnskostnaði sé ógagnsæ og að mat á kostnaði skulda og eigin fjár sé ekki í samræmi við mat margra markaðsaðila. Samtök iðnaðarins hafi undanfarin ár gagnrýnt harðlega núverandi fyrirkomulag og óskað eftir að tekið verði upp gagnsætt ferli við mat á vegnum fjármagnskostnaði sem tekur mið af mati markaðar í meiri mæli. Samtökin benda jafnframt á að ekkert lát virðist vera á hækkunum en verðþróun flutningstapa hefur ekki verið í samræmi við aðra liði í gjaldskrá Landsnets. Verð á orkugjaldi, aflgjaldi og afhendingargjaldi lækkaði lítillega frá 2013 til 2018 meðan verð fyrir flutningstöp jókst um hartnær 110%. Gjaldskrá vegna flutningstapa endurspeglar hverju sinni það verð sem Landsnet greiðir fyrir flutningstöp í kerfinu. Margt bendir til að álagning tilboðshafa á flutningstöp hafi aukist á þessum tíma og endurspeglar það m.a. fákeppni á útboðsmarkaði. Hætt er þá við að smæð markaðarins geti af sér samráð tilboðsaðila í verðlagningu og/eða magni. Almenningur og fyrirtæki landsins bera hallann af slíku.

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.