Fréttasafn19. feb. 2024 Almennar fréttir Félag vinnuvélaeigenda Mannvirki

Stefnumótun og nafnabreyting til umræðu á félagsfundi FVE

Félagsmenn Félags vinnuvélaeigenda, FVE, fjölmenntu á félagsfund föstudaginn 16. febrúar í Húsi atvinnulífsins. Tilgangur fundarins var að efna til stefnumótunar með félagsmönnum til að gefa stjórn félagsins og starfsmönnum SI skýra og leiðbeinandi sýn á þau verkefni sem félagsmenn vilja að sett séu á oddinn á næstu misserum. Að auki var möguleg nafnabreyting félagsins til umræðu en félagsmenn FVE hafa kallað eftir nýju og uppfærðu nafni á félagið í þeim tilgangi að ná betur utan um starfsemi þeirra og hlutverk í íslensku samfélagi.

Vilhjálmur Þór Matthíasson, formaður FVE og framkvæmdastjóri Malbikstöðvarinnar, setti fundinn og bauð gesti velkomna. Þá fór hann yfir þá vinnu sem stjórn hefur sinnt til undirbúnings fundarins að undanförnu og hefði stjórn miklar væntingar til niðurstaðna fundarins. Þá kvað Vilhjálmur ánægður að sjá þann fjölda sem væri mættur enda mikilvægt að félagsmenn fjölmenni til fundar þar sem verkefni næstu missera og stefna félagsins er ákveðin. Að lokum afhenti Vilhjálmur fundarstjórn til Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, og Bjartmars Steins Guðjónssonar, viðskiptastjóra á mannvirkjasviði SI.

Jóhanna fór yfir nýjar stefnur SI og Mannvirkjaráðs SI en þar sem FVE væri aðili að mannvirkjasviði SI væri það í höndum þessa fundar að máta starfsemi félagsins eftir bestu getu við efni þeirra stefna. Þá fór Bjartmar yfir helstu verkefni FVE að undanförnum misserum til að gefa fundarmönnum skýra sýn á það hvaða verkefni hefðu verið á oddi félagsins að undanförnu og ljóst að þau hafa átt góða samleið með framangreindum stefnum. Að loknum kynningum hófst stefnumótun félagsins undir stjórn Bjartmars og sköpuðust skemmtilegar og líflegar umræður við þá vinnu sem og við hugmyndasmíði á nýju nafni félagsins. Mun stjórn FVE, Jóhanna og Bjartmar vinna úr efni fundarins og er stefnt að því að kynna nýja stefnu og tillögur að nýju nafni á aðalfundi félagsins síðar í vor, auk nauðsynlegra lagabreytinga, allt saman til ákvörðunar og samþykkis aðalfundarins.

 Image00006_1708349420975

Image00012_1708349445960

Image00013_1708349463778

Image00016_1708349483305

Image00017_1708349509115

Image00020_1708349531027

Image00023