Fréttasafn



28. apr. 2017 Almennar fréttir Menntun

Stelpur kynnast fyrirmyndum í tæknigeiranum

Um 400 stelpur úr grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu komu í heimsókn í Háskólann í Reykjavík í gær til að kynna sér fjölbreytt tæknileg viðfangsefni og starfsmöguleika í tæknifyrirtækjum. Viðburðurinn Stelpur og tækni var nú haldinn í fjórða sinn í samstarfi HR, SKÝ og Samtaka iðnaðarins. Markmiðið er að vekja áhuga stelpna á fjölbreyttum möguleikum í tækninámi og störfum, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tæknigeiranum og brjóta niður staðalímyndir.

Í HR sóttu stelpurnar vinnusmiðjur í umsjá Skema, /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR, og kennara tölvunarfræðideildar og tækni- og verkfræðideildar HR. Viðfangsefnin voru fjölbreytt og stelpurnar kynntust m.a. mælingum á heilabylgjum með heilarita, mældu burðarþol kjúklingabeina, glímdu við vefforritun og bjuggu til rafmótor. Síðan fóru stelpurnar í heimsókn í tæknifyrirtæki þar sem konur sem starfa hjá fyrirtækjunum miðluðu af reynslu sinni, veittu þeim innsýn í í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi.

Þau fyrirtæki sem stelpurnar heimsóttu í ár voru: Marel, Eimskip, CCP, Síminn, Icelandair, Advania, Reiknistofa bankanna, Össur, Opin kerfi, Íslandsbanki, LS Retail, Meniga, Landsvirkjun, Syndis, Microsoft og Valitor.

„Girls in ICT Day“ er haldinn víða um Evrópu í apríl á hverju ári í tengslum við Digital Agenda-áætlunina. Stelpur og tækni dagurinn 2017 hlaut í samstarfi við aðgerðahóp stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins styrk úr Jafnréttissjóði Íslands árið 2016. Ennfremur hlaut verkefnið styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og velferðarráðuneytinu úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála. Samstarf við ráðuneytin og aðgerðahóp stjórnvalda og samtök aðila vinnumarkaðarins gerir verkefninu kleift að ná til stelpna á landsbyggðinni. Verkefnið fellur að þeim markmiðum stjórnvalda  sem fram  koma í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum 2016-2019 um að fjölga konum í verk-, tækni- og raunvísindum til að draga megi úr kynjaskiptingu starfa á vinnumarkaði og kynbundnu námsvali.

Fleiri myndir á Facebook.