Fréttasafn28. apr. 2016 Iðnaður og hugverk Menntun

Stelpur og tækni

Háskólinn í Reykjavík, ásamt Ský og Samtökum iðnaðarins standa fyrir viðburðinum Stelpur og tækni í dag, fimmtudaginn 28. apríl. Viðburðurinn er nú haldinn í þriðja sinn og hefur dagskráin aldrei verið umfangsmeiri. Um fjögur hundruð stelpur úr grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu og Austurlandi heimsækja háskólann og nærri 20 tæknifyrirtæki. Markmiðið með viðburðinum er að vekja áhuga stelpna á fjölbreyttum möguleikum í tækninámi og störfum, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tæknigeiranum, brjóta niður staðalímyndir og sýna þeim fjölbreytileikann sem einkennir tækniiðnaðinn.

Vinnusmiðjur eru haldnar í HR í umsjá /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR, Skema og kennara tölvunarfræðideildar og tækni- og verkfræðideildar. Viðfangsefnin eru af ólíkum toga og í ár verður meðal annars boðið upp á vinnusmiðjur um uppbyggingu tölvuleikja, félagsgervigreind og brotaþol beina.  

Eftir að vinnustofunum lýkur eru tæknifyrirtæki heimsótt. Þar miðla konur sem starfa hjá fyrirtækjunum reynslu sinni, gefin er innsýn í í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi. Þau fyrirtæki sem stelpurnar heimsækja í ár eru: Advania, Alcoa, CCP, GreenQloud, Íslandsbanki, Landsvirkjun, LS Retail, Marel, Mentor, NOVOMATIC Lottery Solutions, Meniga, Microsoft, Opin Kerfi, ORF Líftækni, Plain Vanilla, Qlik, Síminn og Tempo Software.

„Girls in ICT Day“ er haldinn víða um Evrópu í apríl á hverju ári og er styrktur af ITU (International Telecommunication Union) og Evrópusambandinu í tengslum við Digital Agenda-áætlunina. HR hefur haldið utan um daginn hér á landi frá upphafi, árin 2014 og 2015. Stelpur og tækni fór upphaflega af stað með styrk úr framkvæmdasjóði jafnréttismála og hefur nú hlotið veglegan styrk úr samfélagssjóði Alcoa.