Fréttasafn16. maí 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Sterk rök fyrir lækkun stýrivaxta

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að í nýrri greiningu SI komi fram að á stuttum tíma hafi slaki tekið við af spennu í efnahagslífinu, sem lýsi sér meðal annars í því að atvinnuleysi mældist í apríl 3,7 prósent borið saman við 2,3 prósent á sama tíma fyrir ári, og sterk rök séu þess vegna fyrir því að stýrivextir verði lækkaðir þegar vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans verður kynnt miðvikudaginn 22. maí næstkomandi.

Í fréttinni segir að SI telji fjórar meginforsendur séu fyrir því að ráðast í lækkun vaxta. Þannig hafi miklar breytingar orðið til hins verra í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins vegna minnkandi tekna af erlendum ferðamönnum eftir fall WOW air. Það hafi mikil áhrif á afkomu margra fyrirtækja sem þurfi að bregðast við breyttu ástandi með fækkun starfsfólks.

Þá kemur fram í fréttinni að versnandi horfur í efnahagsmálum endurspeglist í þeirri staðreynd að væntingar stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins hafi gerbreyst til hins verra. Vísitala efnahagslífsins, sem mæli mun á fjölda stjórnenda sem meti aðstæður góðar eða slæmar, hafi þannig ekki verið lægri síðan árið 2013. Væntingar til næstu sex mánaða séu áfram í sögulegi lágmarki en nýlega hafi Hagstofan lækkað hagvaxtarspá sína fyrir þetta ár í 0,2 prósenta samdrátt í hagkerfinu.

Í þriðja lagi segir í fréttinni, að því er fram kemur í greiningunni, þá sé það mat SI að nýir kjarasamningar við meirihluta vinnumarkaðarins, sem séu til ársins 2022 og skapi grundvöll að stöðugleika og framleiðnivexti, séu góð undirstaða fyrir lækkun stýrivaxta Seðlabankans.

Að lokum segir að á það sé bent að verðbólguvæntingar aðila á innlendum fjármálamarkaði hafi lækkað frá síðustu könnun sem hafi verið gerð í ársbyrjun. Vænta þeir þess að verðbólgan, sem mælist nú 3,3 prósent, verði 3 prósent eftir eitt ár og 2,8 prósent eftir tvö, sem er litlu meira en verðbólgumarkmið Seðlabankans. Á sama tíma og raunstýrivextir bankans, mældir sem munurinn á stýrivöxtum og verðbólguvæntingum, hafi verið að hækka þá hafi hins vegar verið vaxandi slaki í efnahagslífinu. Sú þróun, að því er segir í greiningu SI, sé andstæð því sem rétt er við slíkar aðstæður, sem væri að draga úr aðhaldi peningastefnunnar.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 16. maí 2019.