Sterk samstaða norrænna innviðaverktaka
Fulltrúar Samtaka innviðaverktaka, SIV, sóttu fund systursamtaka sinna á Norðurlöndum í Osló dagana 24.–25. september síðastliðinn. Á fundinum, sem haldinn var á vegum norsku samtakanna MEF, kom skýrt fram að þrátt fyrir ólíkar markaðsaðstæður standa innviðaverktakar á Norðurlöndum frammi fyrir svipuðum áskorunum, sérstaklega þegar kemur að grænum umskiptum, fyrirsjáanleika í verkefnum, áskorunum í opinberum innkaupum og öryggismálum.
Frá Íslandi sátu fundinn Sólveig Margrét Kristjánsdóttir, formaður SIV, og stjórnarmennirnir Guðmundur Sveinsson og Pétur Kristjánsson, ásamt Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI.
Sameiginlegar áskoranir í ólíku umhverfi
Á fundinum var farið yfir stöðu mála í hverju landi fyrir sig. Þótt efnahagsaðstæður séu breytilegar komu fram skýrar sameiginlegar áskoranir:
-
Græn umskipti án fjármögnunar: Í Noregi er gerð rík krafa um losunarlausar framkvæmdir en fjármögnun fylgir ekki eftir, sem leiðir til þess að minna fæst fyrir sama fjármagn. Danir hafa þegar sett lög um kolefnislosun á hvern fermetra nýbygginga. Sameiginleg niðurstaða var sú að stjórnvöld verða að tryggja að kröfur um orkuskipti séu raunhæfar og fjármagnaðar.
-
Fjárfestingar og fyrirsjáanleiki: Finnar kynntu metnaðarfulla og fullfjármagnaða fjárfestingaráætlun í innviðum til ársins 2028, sem skapar mikinn fyrirsjáanleika. Danir kynntu einnig sinn samgöngusáttmála sem er fullfjármagnaður mörg ár fram í tímann. Fyrir Íslands hönd var lögð áhersla á þörfina á auknum fyrirsjáanleika og þá gríðarlegu viðhaldsþörf sem er í íslenskum innviðum, en jafnframt þá aukningu sem boðuð hefur verið á opinberum útboðum.
-
Mannauður og öryggi: Hækkandi aldur mannauðs er vaxandi áskorun í öllum löndunum. Íslenski hópurinn kynnti stofnun Öryggisskóla iðnaðarins, en þar er markmiðið að efla öryggismenningu og fækka slysum í greininni.
Framtíðin í verki – Vettvangsferðir í Osló
Til að gefa fundargestum innsýn í nýjustu lausnir voru tvö framsækin verkefni í Osló heimsótt. Annars vegar var skoðaður fullkomlega rafvæddur verkstaður þar sem allar vélar voru rafknúnar. Hins vegar var heimsótt ný endurvinnslustöð sem hreinsar mengaðan jarðveg og byggingarefni til endurnýtingar. Bæði verkefnin sýndu á áþreifanlegan hátt hvernig byggingariðnaðurinn getur stuðlað að hringrásarhagkerfi og minni losun.
Mikilvægi samstarfs
Fundurinn í Osló undirstrikaði mikilvægi norræns samstarfs. Niðurstaða fundarins var skýr: með því að miðla þekkingu og ákorunum geta samtökin haft áhrif og miðlað aðferðarfræði og hugmyndum um skynsamlegar og raunhæfar lausnir. Slíkt samstarf er lykilatriði til að tryggja sterkan og sjálfbæran byggingariðnað á Norðurlöndum til framtíðar.
Sólveig Margrét Kristjánsdóttir, formaður SIV, og stjórnarmennirnir Guðmundur Sveinsson og Pétur Kristjánsson.