Fréttasafn27. feb. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Sterkt gengi krónunnar er skammgóður vermir

Í Morgunblaðinu um helgina er rætt við Bjarna Má Gylfason, hagfræðing SI, um gengi krónunnar í frétt sem Þóroddur Bjarnason, blaðamaður, skrifar með yfirskriftinni Gengisvísitalan ekki lægri síðan í júlí 2008 og segir Bjarni Már meðal annars að sterkt gengi sé skammgóður vermir ef við erum að missa alþjóðlega samkeppnishæfni.

Fréttin í Morgunblaðinu: Gengisvísitala íslensku krónunnar hefur ekki verið lægri síðan 14. júlí 2008 og þar af leiðandi gengi hennar ekki verið sterkara. Gengi Bandaríkjadals er til að mynda komið niður fyrir 110 krónur í fyrsta skipti síðan í október 2008. 

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir í samtali við Morgunblaðið að krónan sé að verða ein sterkasta mynt í heimi. „Kaupmáttur Íslendinga í erlendri mynt hefur vaxið mjög mikið og raunar miklu meira en bein styrking krónunnar gefur til kynna vegna þess að laun hér hafa vaxið miklu meira en í samkeppnislöndum okkar,“ segir Bjarni. 

Hann bendir á að Íslendingum líði almennt vel í svona ástandi enda sé kaupmáttur okkar mikill. „En á sama tíma erum við að veikja stoðir atvinnulífsins til lengri tíma, sem við byggjum afkomu okkar á. Þetta er skammgóður vermir ef við erum að missa alþjóðlega samkeppnishæfni.“ 

Framtíðaráform í uppnámi 

Bjarni segir að styrkur krónunnar geri samkeppnishæfni fyrirtækja mjög erfiða. „Þeir sem finna einna mest fyrir þessu hjá okkur eru tækniog hugverkafyrirtæki, sem eru í mannauðsfrekri starfsemi. Hlutfallsleg laun hér eru orðin gríðarlega há en það sem menn eru að fá fyrir vörurnar er að minnka í krónum talið á sama tíma. Þá er erfitt ástand fyrir fyrirtæki sem keppa við innfluttar vörur.“ 

Bjarni segir þetta geta sett framtíðaráform fyrirtækja í uppnám og hamlað vexti þeirra. Hann segir að Samtök iðnaðarins hafi sett fram hugmyndir til að bregðast við styrkingu krónunnar. „Til dæmis mætti skoða að setja gólf á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða frekar en þak. En það er samt Seðlabankinn sem heldur á öflugasta stýritækinu, vöxtunum. Þeir styðja við styrk krónunnar. Við erum með afar litla verðbólgu og lágar verð- bólguvæntingar og okkur finnst sem það séu sterkar undirliggjandi forsendur fyrir því að lækka vexti og minnka vaxtamun. Þessi styrking krónunnar hefur neysluhvetjandi áhrif, og meiri áhrif en lækkun vaxta hefði í för með sér.“ 

Morgunblaðið, 25. febrúar 2017.