Fréttasafn19. feb. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði

Stjórn MIH endurkjörin

Á aðalfundi Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði, MIH, sem haldinn var í Hótel Selfossi 17. febrúar var stjórn endurkjörin og er þannig skipuð: Jón Þórðarson formaður, Hjálmar R. Hafsteinsson varaformaður, Sigurfinnur Sigurjónsson gjaldkeri, Arnar Þór Guðmundsson ritari og Hilmar Snær Rúnarsson meðstjórnandi.Kosið var um varaformann og gjaldkera. Fráfarandi stjórnarmenn gáfu báðir kost á sér áfram og komu engin mótframboð að þessu sinni. Ein breyting varð á varastjórn MIH, Kristinn Kristinsson dó framboð sitt til baka þegar Gísli Johnsen ákvað að gefa kost á sér í varastjórn. Varastjórn MIH er þá þannig skipuð, Kristófer Þorgeirsson, Arnar Dór Hannesson og Gísli Johnsen.

MIH hélt aðalfund og árshátíð sama dag. Dagurinn byrjar á því að félagsmönnum og mökum er boðið í hádegisverð. Að honum loknum mæta félagsmenn til aðalfundar en makar nýta sér það sem í boði er á Selfossi. Ávallt hafa félagsmenn fjölmennt á aðalfundinn og var engin breyting á því nú en um 60 félagsmenn mættu á fundinn. Að þessu sinni voru 6 nýjar inngöngur kynntar á þessum aðalfundi.

Formaður félagsins, Jón Þórðarson, flutti greinagóða skýrslu þar sem farið var yfir það sem helst hefur brunnið á félagsmönnum ásamt því að tilgreina hvað Samtök iðnaðarins (SI) og Meistaradeild SI (MSI) hafa verið að vinna fyrir félagsmenn.

Að venju voru skipulags- og lóðamál mikið rædd á fundinum og kom fram að félagið leggur áherslu á að ávallt séu lóðir í boði fyrir félagsmenn til að halda verkefnastöðunni stöðugri. Það kom fram að því miður líti út fyrir að lóðamál í Hafnarfirði verði ekki í góðum málum nema „Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins“ verði breytt. Það lítur út fyrir að allar lóðir, samkvæmt skipulagi, verði búnar árið 2025/2026 sem fundarmenn töldu óásættanlegt.

Um kvöldið var árshátíð félagsins haldin og var gleðin allsráðandi. Gestir hátíðarinnar voru 172 talsins og voru allir á því að þetta hafi verið ein besta árshátíð sem haldin hefur verið. 

20240217_141520

20240217_142626

20240217_143255

20240217_141456

20240217_141525