Stjórnendur byggingafyrirtækja sjá fram á fækkun starfsmanna
Stjórnendur byggingarfyrirtækja sjá fram á mesta fækkun starfsmanna en verslun kemur þar á eftir. Fækkun starfa virðist framundan í flestum atvinnugreinum nema ýmissi sérhæfðri þjónustu. Þetta kemur meðal annars fram í niðurstöðum Gallup könnunar sem gerð var fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins.
Úr niðurstöðum könnunarinnar má lesa að starfsmönnum í þeim fyrirtækjum sem spurð eru gæti fækkað um 600 á næstu 6 mánuðum. Hjá fyrirtækjunum í könnuninni starfa 24 þúsund starfsmenn en 14% fyrirtækjanna búast við fjölgun starfsmanna og 24% við fækkun á næstu sex mánuðum. Fjölgunin er tæplega 1.100 hjá þeim sem áforma fjölgun en fækkunin rúmlega 1.700 hjá þeim sem áforma fækkun.
Vísitala efnahagslífsins sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, breytist lítið frá síðustu könnun. 30% stjórnenda telja aðstæður góðar í atvinnulífinu en 15% telja þær slæmar. Matið er lakast í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.
Þegar spurt er um verðbólguvæntingar kemur í ljós að væntingar stjórnendanna næstu 12 mánuði eru við markmið Seðlabankans sem er 2,5%.
Á vef SA er hægt að lesa nánar um könnunina.