Fréttasafn



5. nóv. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Stjórnendur iðnfyrirtækja kalla eftir stöðugleika

Stjórnendur iðnfyrirtækja telja mikilvægt að næsta ríkisstjórn beiti sér fyrir stöðugu, hagkvæmu og skilvirku starfsumhverfi. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI. Stjórnendurnir vilja í því sambandi að næsta ríkisstjórn beiti sér fyrir lækkun verðbólgu og vaxta, dragi úr byrðum á fyrirtækjum í formi skatta og gjalda, lækki eftirlits- og þjónustugjöld og einfaldi laga- og reglugerðarumhverfi fyrirtækja. Einnig vilja þeir að stjórnvöld grípi til aðgerða á framboðshlið hagkerfisins og auki þannig samkeppnishæfni þess, m.a. með því að grípa til aðgerða til að ná jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði, tryggja nægt framboð af raforku fyrir uppbyggingu atvinnulífsins, fjölga iðn- og STEAM-menntuðum á vinnumarkaði í takt við þarfir atvinnulífsins og liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga í tæknigreinum. Þá vilja stjórnendur iðnfyrirtækja að næsta ríkisstjórn leggi áherslu á að nýframkvæmdir og viðhald innviða tryggi að staða þeirra sé góð og mæti þörfum atvinnulífsins. Þeir vilja einnig að kerfi skattafrádráttar vegna rannsókna og þróunar verði gert varanlegt. Þá vilja þeir að stjórnvöld leggi áherslu á eftirlit með starfsemi réttindalausra í iðnaðargreinum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun sem Outcome gerði fyrir Samtök iðnaðarins í lok október síðastliðins.

92% stjórnenda iðnfyrirtækja segja að það skipti miklu máli fyrir rekstur þeirra að næsta ríkisstjórn skapi skilyrði fyrir lækkun vaxta og verðbólgu á næsta kjörtímabili. Ekki nema ríflega 3% segja að það skipti litlu máli. Áherslan á lækkun verðbólgu og vaxta er mikil í öllum greinum iðnaðar en mest í mannvirkjaiðnaði þar sem 98% stjórnenda segja að það skipti miklu máli fyrir rekstur þeirra að stjórnvöld leggi áherslu á að skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta og verðbólgu. 

Stjórnendur iðnfyrirtækja vilja að stjórnvöld leggi áherslu á að draga úr byrðum á fyrirtæki í formi skatta og gjalda. Í könnuninni kemur fram að ríflega 79% stjórnenda iðnfyrirtækja segja að það skipti miklu máli fyrir rekstur þeirra að næsta ríkisstjórn leggi áherslu á að draga úr byrðum á fyrirtæki í formi skatta og gjalda. Ekki nema tæplega 5% segja að það skipti litlu máli. Hlutfall stjórnenda sem segja að þetta skipti miklu máli er hátt í öllum greinum iðnaðarins.

Hér er hægt að nálgst greininguna.

Stjornendur-idnfyrirtaekja