Fréttasafn26. feb. 2021 Almennar fréttir

Stjórnendur iðnfyrirtækja vænta viðsnúnings í rekstri

Niðurstöður könnunar sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins meðal stjórnenda íslenskra iðnfyrirtækja gefa til kynna að þeir vænti viðsnúnings í rekstri sinna fyrirtækja á seinni hluta ársins í ár eftir samdrátt síðustu misseri. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI þar sem segir að 42% stjórnenda iðnfyrirtækja vænti aukningar í tekjum á seinni helmingi þessa árs en 20% reikna með samdrætti á þeim tíma. Einnig sýna niðurstöðurnar að fyrirtækin sjá fram á fjölgun starfsfólks á seinni hluta ársins eftir fækkun síðan á árinu 2019. Tölurnar benda hins vegar ekki til þess að viðsnúningurinn verði snarpur. Á 3. fjórðungi telja 21% að starfsmönnum muni fjölga en 11% að þeim muni fækka og á síðasta fjórðungi telja 18% að starfsmönnum muni fjölga en 14% að þeim muni fækka. Ríflega 28% stjórnenda iðnfyrirtækja segja að starfsmönnum í þeirra fyrirtækjum muni fjölga litið til næstu 12 mánaða en 14% að þeim muni fækka. Könnunin var gerð á meðal stjórnenda aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins dagana 12.-22. febrúar síðastliðinn.

Mynd-Vidhorfskonnun-002-

Stjórnendur iðnfyrirtækjanna voru spurðir að því hvernig þeir meti aðstæður í efnahagslífinu á Íslandi fyrir þeirra fyrirtæki. Telja tæplega 43% þeirra að þær séu góðar og hefur það hlutfall ekki verið hærra síðan árið 2018. Hækkar hlutfallið umtalsvert á milli ára en í sambærilegri könnun sem gerð var í apríl í fyrra töldu 24% aðstæður góðar. Að sama skapi lækkar hlutfall þeirra sem telja að aðstæður séu slæmar en ekki nema 19% telja að þær séu slæmar nú og lækkar það úr 52% í apríl í fyrra. Hlutfall þeirra sem telja að aðstæður séu hvorki slæmar né góðar eykst verulega á milli ára en nú er það hlutfall 37% samanborið við 24% í apríl í fyrra.  

Hér er hægt að nálgast greininguna.