Fréttasafn



10. okt. 2016 Almennar fréttir

Stjórnendur segja aðstæður góðar í atvinnulífinu

83% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu góðar og einungis 2% að þær séu slæmar. Þetta kemur fram í könnun Samtaka atvinnulífsins sem Gallup framkvæmir meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins. Stjórnendur mátu aðstæður svipaðar á árabilinu 2004-2007. 

Tæplega helmingur fyrirtækja finnur fyrir vinnuaflsskorti og má búast við tæplega 2% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu 6 mánuðum sem gæti þýtt fjölgun um rúmlega 2.100. Rúmlega 30.000 starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni og sjá 37% stjórnenda fram á fjölgun starfsmanna á næstu 6 mánuðum, 58% búast við óbreyttum fjölda og 5% sjá fram á fækkun. Búist er við mestri fjölgun í byggingarstarfsemi, iðnaði og ferðaþjónustu.

42% stjórnenda búast við að framlegð standi í stað, 39% að hún aukist og 19% að hún minnki. Horfur eru bestar í byggingarstarfsemi en lakari í sjávarútvegi og flutningum og ferðaþjónustu.

39% stjórnenda segja fjárfestingar hafa aukist á árinu. Aukning í fjárfestingum er í öllum atvinnugreinum nema fjármálastarfsemi en mest aukning er í byggingarstarfsemi og flutningum og ferðaþjónustu. 

Verðbólguvæntingar stjórnenda hafa minnkað en þeir vænta 2% verðbólgu næstu 12 mánuði og að verðbólgan verði 3% eftir tvö ár. Stjórnendur vænta þess að verð á þeirra vöru og þjónustu hækki um 0,6% á næstu 6 mánuðum og verð á aðföngum hækki um 1,2%. Stjórnendur vænta þess að gengi krónunnar styrkist um 1,3% næstu 12 mánuðina.

Könnunin er á vef SA .