Fréttasafn10. feb. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Stjórnvöld bregðist hratt við

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, um nýja greiningu SI sem sýnir dökka mynd af íslensku hagkerfi.  Þar kemur fram að landsframleiðsla á mann hafi sjaldan dregist eins mikið saman sé miðað við undanfarna þrjá áratugi og atvinnuleysi sé mikið í sögulegu samhengi. Allt bendi til að erfiðleikar muni halda áfram nema þá að íslensk stjórnvöld bregðist hratt við.

Ingólfur segir að niðurstaða greiningarinnar bendi til þess að þau fjölmörgu áföll sem íslenskt hagkerfi hafi orðið fyrir að undanförnu hafi umtalsverð áhrif á efnahagslífið og að horfurnar fyrir þetta ár hafi verið að versna. „Landsframleiðsla á mann dróst saman um 1,5 prósent á síðasta ári og við sjáum skýr merki þess að fjárfestingar atvinnuveganna hafa minnkað. Þá hafa útlán bankanna dregist saman og atvinnuleysi aukist samhliða því að fyrirtæki hafa fækkað launþegum til að mæta niðursveiflunni.“

Heppilegur tímapunktur að ráðast í innviðaframkvæmdir

Í fréttinni segir að orsakir niðursveiflunnar séu fyrst og fremst samdráttur í gjaldeyristekjum sem sé einn sá mesti í þrjá áratugi. Ingólfur nefnir áföll eins og samdrátt í flugframboði, loðnubrest, minni álframleiðslu og kórónaveiruna sem þætti sem dregið hafi úr gjaldeyrissköpun hagkerfisins. „Við erum háð gjaldeyrisviðskiptum og því vega þessi áföll þungt.“ Samkvæmt greiningunni sé útlitið áfram dökkt og því afar mikilvægt að stjórnvöld bregðist hratt við til þess að snúa þróuninni við. „Sem betur fer er svigrúm til þess,“ segir Ingólfur í Fréttablaðinu. Hann bendir á að verðbólga sé lág og verðbólguvæntingar við verðbólgumarkmið sem gefi svigrúm til áframhaldandi lækkunar stýrivaxta. Þá sé skuldastaða ríkisins lág og það geri yfirvöldum kleift að ráðast í aðgerðir til að sporna við vandanum. „Þetta er heppilegur tímapunktur til þess að ráðast í innviðaframkvæmdir enda mikil uppsöfnuð þörf þar. Þá þurfa ríki og sveitarfélög að létta álögum af fyrirtækjum auk þess sem nauðsynlegt er að liðka fyrir lánveitingum bankanna. Framboð af lánsfé er vítamínið sem hagkerfið þarf.“ 

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 10. febrúar 2020.

Frettabladid-10-02-2020