Fréttasafn



14. jan. 2026 Almennar fréttir Mannvirki

Stjórnvöld bregðist við svartri atvinnustarfsemi iðnaðarmanna

Jón Sigurðsson húsasmíðameistari og formaður MSI og Pétur H. Halldórsson rafvirki og varaformaður MSI segja í Bítinu á Bylgjunni að ásókn í svarta atvinnustarfsemi hafi aukist nýverið í kjölfar samdráttarskeiðs í iðnaðinum og að það sé mikið áhyggjuefni. „Það er erfitt að setja puttann á það held ég hversu umfangið er mikið en það er gríðarlegt og það eru örugglega til tölulegar staðreyndir um það hjá ríkisskattsstjóra hvað svört starfsemi er mikill hluti af þessu. En við verðum alltaf varir við þetta í öllum samdráttarskeiðum, þá kemur þessi eftirspurn eftir svartri vinnu,“ segir Pétur. Þeir segja að stjórnvöld þurfi að bregðast við með hækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts á vinnu iðnaðarmanna en endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu var lækkuð árið 2023 úr 60% niður í 35%. Jón segir engin rök hafa verið gefin á sínum tíma en augljóst hafi verið að ráðamenn hafi vonast eftir meiru í ríkiskassann. Hann segir einu leiðina til að bregðast við svartri atvinnustarfsemi vera að hækka endurgreiðsluna. „Með því að endurgreiða virðisaukaskatt af vinnu 100% þá fær ríkið bæði tekjuskattinn á fyrirtækin sem fá að vinna verkin og svo staðgreiðsluna af starfsmanninum. Þá teljum við að við náum að minnka eða sporna við þessari svörtu vinnu.“

Þeir Jón og Pétur segja að eftirspurn eftir svartri vinnu sé að aukast hér á landi og benda á að engin neytendavernd fylgi slíkum viðskiptum í gegnum samfélagsmiðla. Kaupin séu gjarnan af einstaklingum sem óljóst sé hvort að séu með tiltæk réttindi eða þekkingu en að hægt sé að skoða réttindi iðnaðarmanna og samninga á meistarinn.is.

Bítið á Bylgjunni/Vísir, 14. janúar 2026.