Stjórnvöld leggi sitt af mörkum til nýsköpunarmála
Íslenskur iðnaður hefur átt þátt í því að gjörbylta atvinnuháttum hér á landi og svo verður áfram um langa framtíð. En til þess að hinn frjói jarðvegur skapandi hugsunar megi dafna og vaxa þarf góðan áburð. Stjórnvöld verða að leggja þar sitt af mörkum og það geta þau gert með margvíslegum hætti og áður en lagt er af stað er gott vita hvert ferðinni verður heitið. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanni SI, á opnum fundi um nýsköpunarstefnu SI sem fram fór í Iðnó í gær.
Guðrún sagði jafnframt að ríkisstjórn Íslands taki fram í stjórnarsáttmála sínum að nýsköpun og rannsóknir séu meðal þeirra málaflokka sem mikil áhersla eigi að vera lögð á í stjórnarsamstarfinu. Á síðasta ári hafi ráðherra iðnaðar- og nýsköpunar skipaði starfshóp til að vinna að heildstæðri nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. „Sú nýsköpunarstefna sem við hjá Samtökum iðnaðarins kynnum hér í dag er okkar innlegg inn í þessa vinnu stjórnvalda og bindum við vonir við að nýsköpunarstefna SI verði mikilvægt framlag í umræðu starfshópsins sem og víðar í samfélaginu. Fyrir hönd SI vil ég leggja áherslu á að við erum ávallt til í samstarf við ykkur öll um stefnu til framtíðar. Við verðum að velja okkur verðmætar greinar, við verðum að mennta fólkið okkar og við verðum að fjárfesta í framtíð sem metin er í gæðum en ekki í magni.“