Fréttasafn11. feb. 2021 Almennar fréttir Mannvirki

Stjórnvöld og einkageirinn hraði íbúðaruppbyggingu saman

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem hann segir brýnt að bregðast við því að dregið hafi úr framboði á íbúðum og auka byggingarframkvæmdir. „Ef það verður ekki gert núna er hætt við því að við lendum í verulegum vandræðum að nokkrum árum liðnum. Vegna þess að ef framboð íbúða mun ekki aukast þá getur stefnt í óefni á fasteignamarkaði,“ segir Sigurður. Hann segir að opinberir aðilar og einkageirinn þurfi að vinna saman að þessum málum. „Það þurfa allir aðilar að koma að lausn vandans, stjórnvöld þegar kemur að regluverki og yfirsýn, sveitarfélög hafa í hendi sér hvað mikið er byggt og hvar. Þar þarf að breyta ferlum og menningu í einhverjum tilvikum og einkageirinn sjálfur þarf að gera það sem hann getur til að hraða uppbyggingunni.“

Í fréttinni er vitnað til nýrrar mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þar sem kemur fram að ekki sé útilokað að fasteignaverð geti hækkað enn meira vegna þess að mikið hafi dregið úr framboði eigna. Karlotta Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá hagdeild Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, segir í fréttinni að ef framboð á nýbyggingum taki ekki mikið við sér á næstunni sé áframhaldandi þrýstingur á húsnæðisverð. „Það var mikill samdráttur á nýbyggingum á fyrstu byggingastigum sem þýðir að það verður ekki nægt framboð á markaðnum. Við teljum að það þurfi að byggja um 3.000 nýjar íbúðir á landinu á hverju ári næstu tíu ár. En nú eru aðeins 2.300 byggingar á fyrstu stigum,“ segir Karlotta.

Stöð2/Vísir, 10. febrúar 2021.

Stod-2-10-02-2021-3-

Stod-2-10-02-2021Berghildur Erla Bernharðsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2, ræðir við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI.