Fréttasafn14. mar. 2019 Almennar fréttir

Stjórnvöld og vinnumarkaður stuðli saman að stöðugleika

„Stöðugleikinn er ekki búinn til af einhverjum einum og honum er ekki viðhaldið af einhverjum einum. Stjórnvöld reyna að gera sitt til þess að viðhalda stöðugleikanum og við þurfum síðan vinnumarkað líka sem stuðlar að stöðugleika og vinnur samkvæmt því að hér ríki stöðugleiki.“ Þetta sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, meðal annars í pallborðsumræðum á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins sem fram fór í Hörpu þegar hún var spurð að því hvernig ríkisstjórnin ætlaði að tryggja stöðugleikann, þá mikilvægu forsendu í rekstri iðnfyrirtækja og atvinnulífsins alls. Hún bætti við að regluverkið þyrfti að styðja við stöðugleikann og að ríkisstjórnin væri með ramma peningastefnunnar í endurskoðun. Þá sagði hún að einnig þyrfti nýja löggjöf um vinnumarkaðinn. „Með fleiri stoðum eru meiri líkur á stöðugleika og meiri líkur á því að við stöndum af okkur allskonar hökt.“

Étur ekki stöðugleika né verðbólgu eða vaxtahækkanir

Þórdís sagði stöðugleika vera ótrúlega eftirsóknarvert orð á sama tíma og það væri gert lítið úr þeim sem segja að það skiptir máli. „Það er sagt að þú étir ekki stöðugleikann og ég hef svarað því til á móti að þú étur ekki heldur verðbólgu og vaxtahækkanir." Þá sagði hún að sér þætti merkilegt að vera umkringd fólki sem hefur farið í gegnum þessa kollhnísa og það sé nákvæmlega sama samtal í gangi núna. „Það er sérstakt að okkur er ekki að takast að breyta þessu umhverfi þegar við höfum reynt hitt nokkrum sinnum.“ 

Fjármálastefna, fjármálaáætlun og fjárlög setja ramma

Þórdís sagði að búið væri að gera meiriháttar breytingar frá því hún byrjaði að starfa á Alþingi árið 2013. „Við erum með fjármálastefnu, fjármálaáætlun og síðan fjárlög sem setja þennan ramma algerlega. Það hefur breytt allri hugsun, ekki bara í þingi og í ráðuneytum heldur sömuleiðis í opinberum stofnunum. Þarna er verið að sýna á spilin og setja fram þennan ramma gagnvart samfélaginu öllu.“ 

Hér er hægt að nálgast upptöku frá pallborðsumræðunum á Iðnþingi 2019, auk Þórdísar tóku þátt í umræðunum Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel. Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, stýrði umræðunum.

https://vimeo.com/322141618

Si_idnthing_silfurberg-44

Si_idnthing_silfurberg-29_1552557144409