Fréttasafn22. mar. 2020 Almennar fréttir

Stjórnvöld stíga fram með skýrum og afgerandi hætti

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í Fréttablaðinu um aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar að Samtök iðnaðarins fagni því að stjórnvöld stígi fram með þetta skýrum og afgerandi hætti. Umfangið sé sannfærandi og til þess fallið að lágmarka skaðann. „Skilaboð ráðherranna voru góð. Þar er ég að vísa til orða forsætisráðherra um að meira yrði gert ef á þyrfti að halda og orða fjármála- og efnahagsráðherra um að betra væri að gera of mikið heldur en of lítið. Og það var mikilvægt að þau skyldu segja að stjórnvöld myndu standa með fyrirtækjum og hjálpa þeim að taka réttar ákvarðanir í þröngri stöðu og óvissu. Þetta skiptir máli.“ Hugsunin á bak við aðgerðirnar, þ.e. að verja störf og styðja við fyrirtæki þannig að þau verði tilbúin þegar tækifærin koma, sé hárrétt, þannig sé hægt að lágmarka skaðann og flýta fyrir efnahagsbatanum.

Sigurður minnir á að öll fyrirtæki í öllum greinum finni fyrir áhrifum krísunnar. „Það á sér í lagi við um fyrirtæki í iðnaði en eftirspurn hefur dregist saman og erfitt er að halda framleiðslu og daglegum störfum í föstum skorðum við þessar aðstæður.“

Í  Fréttablaðinu kemur fram að þá fagni Sigurður útvíkkun á verkefninu „Allir vinna“ sem feli í sér að endurgreiðsla virðisaukaskatts til einstaklinga vegna vinnu við endurbætur, viðhald og nýbyggingar fasteigna hækkar úr 60 prósentum í 100 prósent. „Það er mjög jákvætt að sjá það inni vegna þess að það er verkefni sem hefur sannað gildi sitt. Áður en veiran breiddi úr sér yfir alla heimsbyggðina var farið að bera á samdrætti í byggingariðnaði. Þess vegna skiptir þetta átak svo miklu máli.“ 

Þegar Sigurður er spurður um fjárfestingaátak ríkisstjórnarinnar, sem verður aukið um 20 milljarða króna á árinu, segir hann að samtökin hefðu viljað sjá meiri aukningu. „Við hefðum viljað sjá það stærra á þessu ári og meiri áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun, endurgreiðslur vegna kvikmynda, hlutdeildarlán og fleiri verkefni þar sem horft er til efnahagslegrar endurreisnar til skemmri og lengri tíma.“

Fréttablaðið, 21. mars 2020.