Fréttasafn13. nóv. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Stjórnvöld styðji fleiri kosti í orkuskiptum en rafvæðingu

Samtökin telja mikilvægt að stjórnvöld séu opin fyrir og styðji aðra kosti til orkuskipta en s.s. eingöngu rafvæðingu samgönguflota eða notkun á vetni, t.d. notkun metanóls sem þegar er framleitt hér á landi með tækni sem þróuð var af innlendum aðilum. Hentar eldsneytið hvoru tveggja til að knýja samgöngutæki, á sjó eða á landi og að sama skapi getur metanól þjónað mikilvægu hlutverki sem íblöndun í hefðbundið eldsneyti eða við framleiðslu á öðru eldsneyti, s.s. DME, eða tvímetýl-eter, og getur þannig haft breiða skírskotun til orkuskipta almennt, sem hráefni eða eldsneyti. Þetta kemur fram í umsögn SI sem send hefur verið fjármála- og efnahagsráðuneytinu um drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta þar sem lagðar eru til nýjar tímabundnar skattaívilnanir vegna vistvænna-, nýorku – og hreinorkubifreiða auk þess sem lagðar eru til breytingar á þeim ívilnunum sem nú eru í gildi vegna innflutnings og sölu á rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðum. Markmið frumvarpsins er að greiða fyrir orkuskiptum í samgöngum. Þá segir í umsögninni að samtökin árétti því mikilvægi þess að gæta tæknihlutleysis og að frumvarpið, og aðgerðir stjórnvalda á grundvelli þess, mismuni ekki orkugjöfum, og taki þannig með skýrum hætti til ökutækja sem knúin séu áfram af t.a.m. metanóli. Samtökin leggja því til að frumvarpið sé endurskoðað með tilliti til orkuhlutleysis og stutt sé jafnt við orkuskipti, óháð tegund endurnýjanlegra orkugjafa.

Skattalegir hvatar skipta sköpum

Í umsögninni segir að Samtök iðnaðarins telji mikilvægt að greiða fyrir orkuskiptum í samgöngum og telji að hlutverk stjórnvalda sé mikið í því samhengi. Hvatar, þar á meðal skattalegir, til uppbyggingu innviða og fjárfestinga í grænum lausnum skipti þar sköpum. Á undanförnum áratugum hafi vægi umhverfismála vaxið umtalsvert og ljóst að kallað sé eftir ábyrgum aðgerðum, bæði stjórnvalda og atvinnulífsins. Almenningur og stjórnendur fyrirtækja séu upplýstari um áhrif þeirra á umhverfið og nauðsyn þess að draga úr útblæstri gróðurhúsaloftegunda. Gott samstarf stjórnvalda og atvinnulífs sé forsenda þess að metnaðarfullum markmiðum í loftlagsmálum náist. 

Fagna áherslum frumvarpsdraganna

Jafnframt kemur fram í umsögninni að aðgerðir stjórnvalda til að stuðla að jákvæðum breytingum í umhverfismálum þurfi samhliða að stuðla að aukinni samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, sem aftur skili sér í aukinni velsæld þjóðarinnar. Af þeirri ástæðu fagni SI áherslum frumvarpsdraganna, þar sem greitt sé fyrir orkuskiptum með jákvæðum skattalegum hvötum. Samtökin vilji þó benda á að í ákveðnum atvinnugreinum komi orkuskipti enn sem komið er ekki til greina þar sem um tæknilegan ómöguleika sé að ræða. Auknar álögur, til að mynda í formi kolefnisgjalds, breyti ekki þeirri stöðu eða fela í sér raunverulegan hvata til orkuskipta. Með aukinni tækni og bættum innviðum munu fyrirtækin hinsvegar geta tekið stærri skref í átt að orkuskiptum en þangað til feli umræddar álögur eingöngu í sér aukna skattbyrði á fyrirtæki og skerta samkeppnishæfni. 

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.