Fréttasafn28. des. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Stjórnvöld þurfa að breyta áherslum í orkuöflun

„Ég held að við finnum flest fyrir ákveðnum umskiptum í almennri umræðu og áður viðurkennd sjónarmið eru að breytast og jafnvel snúast á haus. Stuðningur við öfgafyllri skilaboð virðist vaxa og uppgangur popúlískra afla víða í Evrópu vekur mér ugg,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður SI, í Morgunblaðinu þegar hann er spurður um hvað hafi staðið upp úr á árinu og hvað sé framundan. „Á meðan á ESB í erfiðleikum og áhrif alþjóðastofnana líkt og Sameinuðu þjóðanna fara þverrandi þrátt fyrir göfug markmið og mikilvægt erindi.“ 

Óhjákvæmilegt að taka erfiðar en nauðsynlegar ákvarðanir

Árni segir að orkumálin hafi verið mjög í brennidepli á innlendum vettvangi á árinu og þar hafi ekki verið staðið rétt að málum á undanförnum 10-15 árum: „Nú hafa stjórnvöld og almenningur vaknað til vitundar um þá alvarlegu stöðu sem komin er upp í orkuöflun. Við blasir að stjórnvöld þurfa að breyta áherslum sínum og virkja stjórnkerfið til aðgerða. Ríkisstjórn sem sérstaklega er mynduð um stöðugleika getur því miður leitt til stöðnunar og afturhalds í mikilvægum atriðum ef hún gætir ekki að sér og aðlagar sig ekki takti samtímans. Það er óhjákvæmilegt að taka erfiðar en nauðsynlegar ákvarðanir. Framfarir verða sjaldnast af sjálfu sér.“

Morgunblaðið, 28. desember 2023.

Morgunbladid-28-12-2023