Stjórnvöld verða að grípa tafarlaust inn í
Í frétt Stöðvar 2 um nýfallin dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um ógildingu virkjanaleyfis Hvammsvirkjunar sem gæti tafið framkvæmdir um eitt til tvö ár kemur fram að Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir stjórnvöld þurfa að huga að lagabreytingum. „Hvort að löggjöfin sem að sköpuð hefur verið á Íslandi komi einfaldlega í veg fyrir uppbyggingu vatnsaflsvirkjana og ef að það er staðan, þá auðvitað verða stjórnvöld að grípa tafarlaust inn í,“ segir Sigurður.
Tugmilljarða tjón vegna seinkunar á nýrri uppbyggingu
„Stærðargráðan var fjórtán til sautján milljarðar vegna tapaðra útflutningstekna, ál, kísill, starfsemi gagnavera og fleira, þannig að ef að það er stærðargráðan að eitt, tvö ár þýða þá kannski fimmtán til þrjátíu milljarðar í tjón. Þá sé ótalið tjón vegna glataðra tækifæra og seinkunar á nýrri uppbyggingu,“ segir Sigurður í frétt Stöðvar 2. Þá segir hann tjón fyrir öll önnur fyrirtæki sem þurfi orku. „Heimilin hafa horft upp á hækkanir á verði raforku líka, þannig að þetta hefur mjög mikil áhrif og miklar afleiðingar um allt samfélagið. En þetta snýst ekki aðeins um rótgróin iðnfyrirtæki. Þetta snýst ekki síður um nýjar greinar sem ætlað er að standi undir framtíðar hagvexti.“
Hægir á hagvexti hér á landi og sitjum eftir
Sigurður segir í fréttinni að löndin í kringum okkur séu öll að horfa til stafrænnar uppbyggingar, til gervigreindar, til innviða í tengslum við það sem er fjórða eða fimmta iðnbyltingin. „Við verðum einfaldlega á eftir og sitjum bara á eftir ef að þetta breytist ekki hér á landi. Það þýði minni hagvöxt.“ Hann segir að þetta geti hægt á hagvexti. „Bæði vegna þess að orkan verður þá ekki til sem að knýr samfélagið rétt eins og öll önnur samfélög en hitt er auðvitað það að framkvæmdir fara þá seinna af stað.“
Hér er hægt að horfa á fréttina.
Stöð 2, 16. janúar 2025.
Kristján Már Unnarsson ræddi við Sigurð í frétt Stöðvar 2.