Fréttasafn



17. sep. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Stóðu vörð um hagsmuni íslenskrar framleiðslu

Ég má til með að nýta tækifærið í upphafi og þakka utanríkisráðuneytinu fyrir að vera vakandi og standa vörð um hagsmuni íslenskrar framleiðslu í samvinnu við atvinnulífið. Þetta sagði Sigurður Helgi Birgisson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, í erindi sem hann flutti á fundi Samtaka atvinnulífsins um sigur Íslands í dómsmáli Evrópusambandsins gegn Iceland Foods Ltd. og áhrif hans á íslenskt atvinnulíf. Sigurður Helgi sagði að þetta væri nokkuð sérkennilegt mál í alla staði en það væri ekki endilega sjálfgefið að stjórnvöld beiti sér með þessum hætti og skili þeim árangri sem hér hafi náðst svo fyrir það beri að þakka enda mikilvægir hagsmunir undir. 

Eftirspurn eftir íslenskri framleiðslu

Sigurður Helgi sagði í erindi sínu að hér á landi væri stunduð fjölbreytt framleiðsla og íslenskar afurðir væru eftirsóknarverðar á alþjóðavísu. „Íslandi fylgja jákvæð hughrif sem veita okkur visst forskot í alþjóðlegri samkeppni – sama á hvaða markað er litið - eru það m.a. hughrif hreinleika, náttúru og gæða.“ Hann sagði ferðamenn streyma hér að til að skoða landið – okkar helstu náttúruperlur - en einnig til að kynna sér menningu okkar í víðum skilningi. Þar undir falli m.a. íslensk matarmenning og íslensk hönnun og framleiðsla. Þá komi hingað til lands erlendar verslunarkeðjur sem vilji bjóða upp á íslenskar afurðir í sínum heimalöndum, en sá áhugi byggi á því orðspori sem íslensk framleiðsla hafi. Sigurður Helgi sagði að eftirspurnin eftir íslenskri framleiðslu væri klárlega til staðar og fyrir því sé fundið þegar leitað væri með vörur á erlenda markaði.

Tryggir að íslensk framleiðsla geti áfram nýtt tækifæri 

Þá kom fram í máli Sigurðar Helga að þýðing málsins væri í grunninn tvíþætt, annars vegar að tryggja að íslensk framleiðsla geti áfram nýtt þau tækifæri sem í orðspori og hughrifum landsins felast og hins vegar að verslunarkeðja frá Bretlandi hafi ekki einkaleyfi á að villa um fyrir neytendum og nýta orðspor landsins með tilheyrandi orðsporsáhættu. Hann sagði að það væri ekki úr vegi að staldra við á þessum tímapunkti og líta til þeirrar stöðu sem við hefðum og tækifæranna sem í henni felist. Þó ýmist óhagræði fylgi landfræðilegri legu okkar og einangrun hafi sú staða einnig fært okkur vissa sérstöðu. Í því samhengi nefndi hann nokkur dæmi; notkun sýklalyfja og varnarefna í matvælaframleiðslu er hverfandi hér á landi í samanburði, ýmsir smitsjúkdómar og áskoranir tengdar matvælaöryggi þekkjast ekki hér, framleiðsla er í grunninn keyrð á hreinni orku og við sanngjarnar og öruggar starfsaðstæður, við nýtum hliðarafurðir og auðlyndir við ýmiskonar framleiðslu og til verðmætasköpunar og hugvitið er auðvitað óþrjótandi uppspretta nýsköpunar og framþróunar.

Fyrst og fremst hreinleiki og gæði 

Sigurður Helgi sagði að það væri ekki að ástæðulausu sem sett hafi verið regluverk um upprunamerkingar matvæla og komið hafi verið á fót sérstökum upprunamerkingum hér á landi því uppruninn skipti máli. Við lítum á slíkar merkingar sem gæðavottun, enda trúum við því að íslensk framleiðsla standi fyrst og fremst fyrir hreinleika og gæði sem við erum og megum vera stolt af.  

Á vef SA er hægt að nálgast nánari upplýsingar um fundinn.