Fréttasafn15. maí 2017 Almennar fréttir Hugverk

Stofna sjóð fyrir viðburði og grasrótarstarf í tæknigeiranum

Sprota- og tæknivefurinn Northstack ásamt Kristjáni Inga Mikaelssyni hefur stofnað nýjan tveggja milljóna króna sjóð sem nefnist „Community Fund“ til að styrkja viðburði og fjármagna samverustundir fólks í tæknigeiranum. Í tilkynningu segir að mikilvægt sé að skapa vettvang þar sem tæknispekúlantar landsins geti komið saman og miðlað af reynslu sinni.

„Erlendis tíðkast svonefnd „meetup“, þar sem fólk úr tæknigeiranum hittist og deilir reynslu og sögum af nýrri tækni og miðlar þekkingu. Svona viðburðir stuðla að mikilli grósku í tæknigeiranum,“ segir Kristján. Hann segir slíka viðburði einnig tíðkast á Íslandi en markmiðið með sjóðnum sé að fjölga þeim enn frekar og auðvelda að búa til nýja. Sjóðurinn nýtur stuðnings Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja (SUT), Tempo, Investa, Frumtak Ventures og Kaptio.

„Það er mikið af fólki með drifkraft til að búa til fullt af góðum hlutum, en stundum vantar smá pening til láta hlutina verða að veruleika. Þar kemur „Community Fund“ inn,“ segir Kristján. Við undirbúning og stofnun sjóðsins nutu stofnendur sjóðsins liðsinnis fyrirtækja og samtaka sem hafa mikla hagsmuni af virku grasrótarstarfi. Fyrirtækin lögðu saman til stofnfé sjóðsins sem eru tvær milljónir króna og er ætlunin að úthluta fjármagninu til góðra verka á næstu tólf mánuðum. Ef vel tekst til er ætlunin að safna aftur í sjóðinn fyrir næsta ár á eftir.

Í úthlutunarnefnd sjóðsins eru ásamt þeim Kristjáni Inga og Guðbjörgu Rist hjá Northstack skipuð Hjálmari Gíslasyni frá Investa, Arndísi Ósk Jónsdóttur CHRO hjá Tempo og Vigni Erni Guðmundssyni sérfræðingi hjá SUT.

Nánar á vef sjóðsins.