Fréttasafn



8. mar. 2018 Almennar fréttir

Stofna styrktarsjóð til að hvetja til iðn- og starfsnáms

Kvika og Samtök iðnaðarins hafa gert með sér samning um stofnun Hvatningarsjóðs Kviku sem hefur það hlutverk að veita styrki til nema í iðn- og starfsnámi með það að markmiði að vekja athygli á mikilvægi náms og starfa á þessu sviði. Samningurinn var undirritaður í Hörpu í morgun og greint verður frá stofnun sjóðsins á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins sem hefst eftir hádegi.

Styrktarfjárhæð sjóðsins er 5 milljónir króna árlega fram til ársins 2020. Heildarstyrkir munu því nema 15 milljónum króna. Í apríl verður hægt að sækja um styrkina og í september verður greint frá  úthlutun þeirra til allt að 14 iðnnema.

Markmið með stofnun sjóðsins er að efla umræðu og vitund um mikilvægi iðn- og starfsnáms og þýðingu starfa sem því tengjast fyrir íslenskt atvinnulíf. Skortur er á iðnmenntuðu starfsfólki og er sá skortur víða orðinn hamlandi fyrir starfsemi fyrirtækja. Samtök iðnaðarins og Kvika taka því höndum saman og vilja með stofnun sjóðsins vekja athygli á iðnnámi og hvetja þá sem velja að mennta sig á þessu sviði. Lögð verður áhersla á að jafna hlut kynjanna með því að hvetja konur sérstaklega til að skoða tækifæri sem bjóðast í iðn- og starfsnámi.

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir það mikið gleðiefni fyrir bankann að geta stutt við nemendur í iðnnámi. „Okkur hefur þótt mikilvægi iðn- og starfsnáms fyrir þjóðfélagið vanmetið og fögnum því að geta lagt eitthvað af mörkum til þess að efla áhuga efnilegs fólks á því.“

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, segir stefnt að því að verkefnið ýti undir vitundarvakningu um mikilvægi iðnmenntunar. „Markmiðið er að fjölga nemendum sem sækja í iðn- og starfsnám, hvetja til  framgangs í námi og draga úr brotthvarfi. Auk þess viljum við með þessu samstarfi við Kviku vekja athygli öflugra námsmanna á tækifærum sem felast í iðnnáminu.“

Á efri myndinni má sjá Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann SI, og Ármann Þorvaldsson, forstjóra Kviku, þegar þau skrifuðu undir samninginn um stofnun styrktarsjóðsins í Hörpu í morgun.

Kvika2

Kvika1Guðrún Hafsteinsdóttir, Sigurður Hannesson, Íris Arna Jóhannsdóttir og Ármann Þorvaldsson.